Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 27. júlí 2016 22:33
Ívan Guðjón Baldursson
Inkasso-deildin: Grindavík jafnaði á lokasekúndunum
Alexander Veigar Þórarinsson bjargaði stigi fyrir Grindavík í kvöld.
Alexander Veigar Þórarinsson bjargaði stigi fyrir Grindavík í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Grindavík 2 - 2 Huginn
1-0 Björn Berg Bryde ('16)
1-1 Pétur Óskarsson ('24)
1-2 Jaime Jornet Guijarro ('32)
2-2 Alexander Veigar Þórarinsson ('93)

Toppbaráttulið Grindavíkur byrjaði vel gegn fallbaráttuliði Hugins í lokaleik kvöldsins í Inkasso-deildinni.

Björn Berg Bryde kom heimamönnum yfir snemma leiks eftir mikinn sóknarþunga á upphafsmínútunum en gestirnir frá Seyðisfirði brugðust afar vel við og jöfnuðu skömmu síðar þegar Pétur Óskarsson skoraði með skalla eftir umdeilda aukaspyrnu.

Átta mínútum síðar var Jaime Jornet Guijarro búinn að koma gestunum yfir með mögnuðu skoti utan teigs sem fór undir samskeytin þar sem Kristijan Jajalo í marki Grindavíkur átti aldrei séns.

Heimamenn voru langt frá því að vera sáttir með að vera undir og tóku að sækja án afláts en inn vildi boltinn ekki. Andri Rúnar Bjarnason fékk kjörið tækifæri til að jafna í síðari hálfleik þegar hann steig á vítapunktinn en Atli Gunnar Guðmundsson, sem átti stórkostlegan leik, varði spyrnuna.

Sóknarþungi Grindvíkinga jókst og jókst og þegar Seyðisfirðingarnir virtust vera búnir að halda út brast stíflan og Alexander Veigar Þórarinsson skoraði með skalla eftir fyrirgjöf frá Gunnari Þorsteinssyni. Nokkrum sekúndum síðar var leikurinn flautaður af.

Grindavík er í öðru sæti deildarinnar eftir jafnteflið, fjórum stigum á eftir toppliði KA sem tapaði fyrir Haukum í dag. Huginn er sem fyrr í fallsæti, með tíu stig eftir þrettán umferðir og fjórum stigum frá öruggu sæti.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner