banner
   mið 27. júlí 2016 16:49
Elvar Geir Magnússon
Man City og Everton nálgast samkomulag um Stones
John Stones fremstur í flokki.
John Stones fremstur í flokki.
Mynd: Getty Images
Manchester City og Everton eru í viðræðum um möguleg kaup City á enska varnarmanninum John Stones.

Samkomulag er ekki í höfn en samkvæmt BBC ber ekki mikið á milli í viðræðunum.

Talið er að City muni borga um 50 milljónir punda fyrir þennan 22 ára fyrrum leikmann Barnsley sem var nálægt því að ganga í raðir Chelsea í fyrra.

Stones var í enska landsliðshópnum sem tók þátt í EM 2016 en kom ekki við sögu.

Pep Guardiola, nýr stjóri City, telur að Stones sé sú týpa af miðverði sem smellpassi í sína hugmyndafræði.

„Við þurfum varnarmann sem er góður að byggja upp spil með einföldum sendingum á miðjuna sem getur svo komið boltanum á sóknarmennina. Leikmenn á þessu svæði þurfa að hafa gæði," sagði Pep Guardiola.

Guardiola notaði miðjumennina Javier Mascherano og Javi Martinez sem miðverði hjá Barcelona og Bayern München. Hann hefur sagt að Fernandinho, miðjumaður City, geti vel leyst stöðu miðvarðar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner