Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 27. ágúst 2015 17:24
Magnús Már Einarsson
Alfreð Finnboga: Verður mjög gaman að spila á Emirates
Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég fylgdist með þessu. Maður var spenntur að sjá hvað kæmi út úr þessu og þetta var skemmtilegur dráttur," sagði Alfreð Finnbogason framherji Olympiakos við Fótbolta.net í dag.

Alfreð og félagar verða með Arsenal, FC Bayern og Dinamo Zagreb í riðli í Meistaradeildinni en dregið var síðdegis.

„Þessir fyrstu tveir pottar eru þétt settir af góðum liðum. Maður tekur því sem maður fær og þetta verður skemmtileg reynsla."

Alfreð segist bíða spenntur eftir að fá að spreyta sig gegn Arsenal á Emirates.

„Það verður mjög gaman. Ég hef komið á leiki á Emirates og horft mikið á enska boltann. Það verður gaman fyrir mig og vini og fjölskyldu að komast og fylgjast með þeim leik. Bayern er líka stórleikur. Það verður öðruvísi leikur en líka gaman."

Olympiakos var ekki langt frá því að komast upp úr riðlinum í Meistaradeildinni á síðasta tímabili.

„Í fyrra var liðið með Juventus og Atletico Madrid í riðli en var bara stigi frá því að fara áfram. Það er allt hægt. Við erum með rosalega sterkan heimavöll og unnum alla heimaleikina í fyrra. Ef við verðum í sama gír og bætum útivallarformið þá er allt mögulegt. Olympiakos stefnir alltaf langt í Meistaradeildinni og það breytist ekki neitt."

Alfreð kom til Olympiakos á láni frá Real Sociedad á dögunum og líst vel á komandi tímabil í Grikklandi.

„Mér líst rosalega vel á allt. Þetta er stór klúbbur með mikla hefð. Það kemur bara eitt til greina og það er að vinna alla leiki. Við byrjuðum vel með 3-0 sigri og hingað til er ég mjög ánægður hérna. Mér gekk vel á undirbúningstímabilinu, vann mig inn í liðið og var í liðinu í fyrsta leik. Ég stefni á að halda því áfram."

Framundan eru tveir mikilvægir leikir hjá íslenska landsliðinu, gegn Hollandi og Kasakstan.

„Allir leikir landsliðsins í þessari keppni hafa verið mikilvægasti leikur í sögu landsliðsins og næsti leikur verður það væntanlega líka. Það verður gaman að keppa á móti Hollandi. Ég átti tvö góð ár þar og það er bara spenna fyrir þessu," sagði Alfreð.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner