banner
   fös 27. september 2013 09:52
Magnús Már Einarsson
Grétar Rafn leggur skóna á hilluna
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Grétar Rafn Steinsson hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna en þetta kemur fram í DV í dag.

„Eins og staðan er akkúrat í dag þá eru engar líkur á því að ég spili fótbolta aftur,“ segir Grétar Rafn í viðtalinu.

Hinn 31 árs gamli Grétar Rafn losnaði undan samningi hjá tyrkneska félaginu Kayserispor í sumar og í kjölfarið greindi hann frá því að hann ætti í mesta lagi hálft ár eftir af ferli sínum.

Grétar meiddist á hné í nóvember í fyrra og hefur ekkert spilað þá. Draumur hans var að komast aftur af stað og fara með íslenska landsliðinu á HM á næsta ári en nú er ljóst að ekkert verður af því.

Í viðtalinu við Grétar kemur fram að hollenska félagið AZ Alkmaar hafi boðið honum starf frá og með á næsta ári en hann lék sjálfur með liðinu frá 2006-2008.

Grétar ólst upp hjá KS á Siglufirði áður en hann fór ungur að árum til ÍA. Hann lék síðan með Young Boys í Sviss, AZ, Bolton á Englandi og Kayserispor í Tyrklandi.

Þá skoraði Grétar samtals fjögur mörk í 46 leikjum með íslenska landsliðinu.
Athugasemdir
banner
banner
banner