mið 27. september 2017 19:09
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Fylkir kærir bikarúrslitaleik 2. flokks
Fyrir leikinn í gær.
Fyrir leikinn í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Víkingur Reykjavík vann Fylki naumlega 2-1 í úrslitaleiknum í bikarkeppni 2. flokks í gær.

Nú hefur komið í ljós að Víkingar léku á ólöglegum manni í leiknum. Leikmaður í byrjunarliði Víkings átti að taka út leikbann sem hann var dæmdur í eftir undanúrslitin.

Fylkir hefur ákveðið að leggja fram kæru eftir að hafa fundað í kvöld. Búast má við því að Árbæjarliðinu verði dæmdur 3-0 sigur í úrslitaleiknum og fái þar með bikarmeistaratitil 2. flokks.

Fylkismenn hafa gefið út yfirlýsingu. Hún er hér að neðan.

„Í leik Fylkis og Víkinga í 2. flokki notuðu Víkingar leikmann sem var í leikbanni. Reglur KSÍ eru skýrar, ef notaður er ólöglegur leikmaður tapast leikurinn. Ólíkt í meistaraflokki þá þurfa félögin að senda inn formlega kvörtun, og er þannig uppálagt að sinna eftirlitshlutverki vegna þessara reglna," segir í yfirlýsingunni.

„Félög fá sendar upplýsingar frá KSÍ þegar leikmenn eru dæmdir í leikbann, og er það á þeirra ábyrgð að sjá til þess að leikmaður spili ekki leik þegar hann er í leikbanni. Í þessu tilviki er ábyrgðin hjá Víkingum en eftirlitshlutverkið hjá Fylki. Öll félög hljóta að vera sammála um að þessum reglum beri að fylgja, því ef þeim er ekki fylgt, þá eru þær marklausar, og markmið knattspyrnuhreyfingarinnar ná ekki fram að ganga. Þegar svona mál koma upp er það alltaf leiðinlegt fyrir báða aðila, þ.e. ábyrgðaraðilinn gerir mistök, og það er sett á herðar eftirlitsaðilans, sem tapaði leiknum, að senda inn formlega kvörtun, sem getur verið mjög erfið staða."

„Við vitum ekki hvernig leikurinn hefði farið ef leikmaðurinn hefði ekki spilað og munum aldrei vita, en það skiptir í raun engu máli þegar við stöndum frammi fyrir því að hafa eftirlit með reglum KSÍ og okkur ber að framfylgja þeim. Fylkir getur ekki sent þau skilaboð, að ekki skuli farið eftir reglum KSÍ, og þannig brugðist því eftirlitshlutverki sem sett eru á okkar herðar af KSÍ. Á þeim forsendum sjáum við okkur í raun ekki annað fært en að senda inn formlega kvörtun til KSÍ, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Á sama tíma finnum við mjög til með Víkingum að hafa gert þessi mistök í svona mikilvægum leik."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner