Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 27. nóvember 2014 15:24
Elvar Geir Magnússon
Norski boltinn
Birkir Már: Það versta sem ég hef upplifað á ferlinum
Hægri bakvörðurinn Birkir Már Sævarsson.
Hægri bakvörðurinn Birkir Már Sævarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birkir er sterklega orðaður við Hammarby.
Birkir er sterklega orðaður við Hammarby.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það urðu stórtíðindi í norska boltanum í gær þegar Brann féll niður í B-deildina. Brann er stórt félag í Noregi og hampaði meistaratitlinum 2007. Liðið steinlá 3-0 fyrir Mjöndalen í umspilsleik um sæti í efstu deild.

Landsliðsmaðurinn Birkir Már Sævarsson leikur með Brann og var hann skiljanlega í slæmu skapi þegar norskir fjölmiðlar ræddu við hann eftir leik.

„Þetta er hrikalegt og í raun ekki mikið meira að segja," segir Birkir sem var spurður að því hvort þetta væri versta stund sem hann hefur upplifað á ferlinum?

„Já án nokkurs vafa. Við vorum einfaldlega lélegir. Það var augljóst að menn fóru á taugum meðan leikurinn stóð yfir."

Birkir á förum
Allt bendir til þess að þetta hafi verið síðasti leikur Birkis fyrir Brann. Hann vildi lítið gefa upp við norska fjölmiðla annað en að hann gæti verið á förum. Birkir hefur sterklega verið orðaður við Hammarby í Svíþjóð.

„Þetta kemur í ljós í næstu viku. Það er ekki hægt að segja meira á þessari stundu. Það er mjög sorglegt að enda tímabilið á þessum nótum. Ég ber sterkar taugar til Brann og liðið átti aldrei að falla. En það var ekki þessi leikur sem felldi okkur," segir Birkir.

Íslendingur til Mjöndalen?
Hinsvegar er Mjöndalen þegar farið að undirbúa veru sína í efstu deild. Vegard Hansen, þjálfari liðsins, segist meðal annars horfa til Íslands í leit að styrkingu.

„Við höfum verið með augun á leikmönnum í Svíþjóð og á Íslandi í nokkurn tíma og þekkjum markaðinn þar nokkuð vel. Það á ekki að koma neinum á óvart þó íslenskir eða sænskir leikmenn komi til okkar," segir Hansen við norska fjölmiðla.
Athugasemdir
banner
banner
banner