Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 27. nóvember 2015 17:00
Elvar Geir Magnússon
Ólafur Ingi hélt að hann gæti ekki komið aftur til Íslands
Ólafur Ingi Skúlason.
Ólafur Ingi Skúlason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bókin Áfram Ísland kom út á dögunum. Í bókinni er fjallað um leið íslenska landsliðsins í lokakeppni EM 2016 og þar er að finna fjöldann allan af viðtölum við leikmenn og þjálfara og ýmsar sögur úr landsliðinu.

Ólafur Ingi Skúlason rifjar til að mynda upp þegar hann fékk rautt spjald í fyrri leik gegn Króatíu í umspilinu fyrir HM. Ólafur togaði niður Ivan Perisic sem var að sleppa einn í gegn þegar skammt var liðið af seinni hálfleik.

„Ég mat það í þeirri stöðu að annað hvort myndi ég taka hann niður eða við fengjum á okkur mark. Ég vonaðist til að sleppa með skrekkinn en dómarinn dæmdi réttilega rautt spjald,“ segir Ólafur. Hann segir brottreksturinn í þessum mikilvæga leik hafa verið eitt af erfiðustu augnablikum ferilsins.

„Á leiðinni út af vellinum hugsaði ég um fjölskylduna og félagana uppi í stúku. Hugsaði um fólkið í kringum þau sem var að blóta mér.Ég sá fyrir mér að við fjölskyldan værum ekkert að fara að flytja aftur heim til Íslands þegar ferlinum lyki,“ segir Ólafur í bókinni.

Hann þurfti að bíða í rúmar 40 mínútur í búningsklefanum eftir að leikurinn kláraðist og vonast til að liðsfélögunum tækist að halda út. „Þar leið mér eins og ég væri einn í heiminum. Ég reyndi að fylgjast með stöðunni í símanum mínum og kíkti út um gluggann eins og ég gat. Þetta var mjög erfið upplifun.“

Ólafur segist hafa beðið þjálfarana og liðsfélaga sína afsökunar eftir leik. Skiljanlega var enginn honum reiður enda erfitt að fullyrða að ákvörðunin um að brjóta hafi verið alslæm. Leiknum lauk með 0-0 jafntefli en króatískt mark hefði sett Ísland í erfiða stöðu fyrir seinni leikinn.
Athugasemdir
banner
banner
banner