Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   mið 27. desember 2017 20:58
Elvar Geir Magnússon
Líkir Van Dijk við Rio Ferdinand
Virgil van Dijk er kominn til Liverpool.
Virgil van Dijk er kominn til Liverpool.
Mynd: Getty Images
Skotinn Neil McGuinness vann sem njósnari hjá Celtic og það var eftir hans skýrslu sem Virgil van Dijk var keyptur frá Groningen í Hollandi.

McGuinnes starfar í dag fyrir knattspyrnusambandið í Katar en í tilefni þess að Van Dijk var keyptur til Liverpool í dag frá Southampton ræddi hann við BBC um þennan 26 ára hollenska varnarmann.

„Um leið og ég sá hann spila vissi ég að hann gæti náð árangri í breskum fótbolta. Hann hafði hraða, kraft, hæð, góðar lappir og gat varist. Enn þann dag í dag skil ég af hverju ekkert félag hafði tekið hann frá Groningen fyrr," segir McGuinnes.

„Hann er með sterka leiðtogahæfileika, er sífellt talandi á vellinum og gerir ekki mörg mistök. Í mínum huga er augljósast að líkja honum við Rio Ferdinand. Báðir eru með svipað vaxtarlag, góðir með boltann, snöggir og sterkir í loftinu."

„Rio var leikmaðurinn sem kom strax upp í huga minn þegar ég byrjaði að horfa á Virgil og ef hann nær helmingnum af ferli Rio þá mun hann ná miklum árangri."

McGuinnes segist hafa það á tilfinningunni að Van Dijk og Joel Matip muni mynda miðvarðapar Liverpool númer eitt.

„Það sem Virgil kemur með inn í varnarlínu Liverpool og hefur sárlega vantað þar er sendingahæfileikinn úr vörninni. Hann getur keyrt með boltann úr vörninni og líka átt langar nákvæmar sendingar. Það gefur liðinu nýja vídd að hafa hann sem getur leitað upp hreyfingar manna eins og Philippe Coutinho og Roberto Firmino."

Þegar McGuinnes er spurður út í helsta veikleika Van Dijk segir hann að það gæti verið hugarfarið.

„Virgil getur verið eins góður og hann vill en þetta snýst um að halda einbeitingu. Ég hef tekið eftir tímum þar sem hann slekkur á leik sínum þegar leikurinn er þægilegur. Það hefur verið hans helsta vandamál. Þetta er klárlega eitthvað sem hann þarf að vinna í. Bestu leikmennirnir halda einbeitingu heilan leik."

Í klefanum segir McGuinnes að Van Dijk sé öflugur karakter. Hann sé tilbúinn að hrekkja félagana í klefanum og á æfingasvæðinu en hann komi með góðan kraft með sér.

„Hann gæti verið eitthvað feiminn í byrjun en þegar hann hefur aðlagast ætti hann að verða lykilmaður í klefanum. Hann hikar ekki við að öskra á liðsfélagana ef þeir gera mistök en á sama hátt hvetur hann þá áfram," segir McGuinnes.

„Að mínu mati er hann meðal tíu bestu miðvarða heims og hann gæti orðið frábær fyrir Liverpool."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner