Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   þri 28. febrúar 2017 20:30
Elvar Geir Magnússon
Sara Björk: Byrjum á baráttuleik
Sara Björk er algjör lykilmaður í íslenska kvennalandsliðinu.
Sara Björk er algjör lykilmaður í íslenska kvennalandsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frá æfingu Íslands á Algarve.
Frá æfingu Íslands á Algarve.
Mynd: KSÍ
Íslenska kvennalandsliðið hefur leik á Algarve mótinu í Portúgal á morgun þegar leikið verður gegn öflugu liði Noregs. Sara Björk Gunnarsdóttir ræddi við Fótbolta.net eftir liðsfund íslenska liðsins nú í kvöld.

„Þetta eru allt erfiðir leikir gegn hörkuliðum á þessu móti. Þetta er góður undirbúningur fyrir Evrópumótið," segir Sara en á föstudag verður leikur gegn Japan og svo gegn Spáni á mánudag.

„Freysi er að leggja upp ákveðið skipulag og hvernig við viljum spila. Fyrst og fremst viljum við þéttan og góðan varnarleik frá öllu liðinu. Það er eitthvað sem einkennir okkur. Svo viljum við halda boltanum. Noregur er öflugt í föstum leikatriðum, þær eru sterkar að vinna fyrsta og annan boltann. Þetta verður barátta."

Snjóþungi í Reykjavík hafði töluverð áhrif á ferðalag íslenska liðsins og missti það af tengiflugi frá Amsterdam til Portúgal. Sara, sem leikur með stórliði Wolfsburg, átti hinsvegar ekki í neinum vandræðum.

„Ég flaug frá Dusseldorf en þær voru í einhverju basli og ferðalagið tók langan tíma. Ég held að þær séu nú allar búnar að ná sér."

Stóra stundin er í júlí þegar stelpurnar leika í lokakeppni Evrópumótsins í Hollandi og er þetta mót í Algarve mikilvægur undirbúningur fyrir EM. Leikmenn eru að sjálfsögðu meðvitaðir um það.

„Allar æfa rosalega vel og eru einbeittar í því að vera eins tilbúnar og hægt er fyrir EM. Við vitum það að á þessu móti verður rúllað á leikmönnum og leikmenn fá tækifæri til að sýna sig og sanna í aðdraganda EM."

Í síðustu viku var tilkynnt að Sara er tilnefnd í heims-úrvalslið FIFA sem opinberað verður í næsta mánuði.

„Þetta er viðurkenning fyrir mig og leikmann. Þetta er gríðarlegur heiður og ég er mjög stolt af því afreki," segir Sara Björk að lokum.

Leikurinn á morgun hefst klukkan 18:30 og verður sýndur beint á RÚV 2.


Hér að neðan má sjá viðtal sem tekið var við Frey Alexandersson landsliðsþjálfara áður en liðið fór út til Algarve.
Freysi: Dáist að dugnaði Hörpu
Athugasemdir
banner
banner
banner