Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   þri 28. apríl 2015 12:30
Arnar Daði Arnarsson
Pepsi-deildin
Bjarni Guðjóns: Brosti að ummælum Heimis
Bjarni Guðjónsson er nýr þjálfari KR.
Bjarni Guðjónsson er nýr þjálfari KR.
Mynd: Fótbolti.net - Mate Dalmay
KR-ingar nældu sér í Pálma Rafn frá Noregi.
KR-ingar nældu sér í Pálma Rafn frá Noregi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Danirnir Sören Frederiksen og Rasmus Christiansen.
Danirnir Sören Frederiksen og Rasmus Christiansen.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
„Markmiðin eru skýr hjá okkur. Við gerum okkur hinsvegar grein fyrir því að keppnin verður mjög hörð,” segir Bjarni Guðjónsson þjálfari KR sem spáð er öðru sæti í Pepsi-deild karla.

Hann býst við harðri og skemmtilegri baráttu í sumar enda flest liðin í deildinni styrkt sig vel og setja stefnuna hátt.

„Það er langt síðan við sáum svona mikla styrkingu í íslenskum fótbolta. Það er jákvætt, það gerir deildina betri og eftirsóknarverðari fyrir erlenda leikmenn að koma til Íslands,” segir Bjarni sem er tilbúinn með sinn hóp fyrir sumarið og segist vera ánægður með þá leikmenn sem hann hefur fengið í vetur.

„Við höfum verið heppnir með þá leikmenn sem hafa komið inn í hópinn.”

Rasmus orðinn hálfur Íslendingur
KR-ingar hafa fengið þrjá danska leikmenn til sín í vetur, auk markmannsþjálfarans, Henrik Bödker sem hefur undanfarin ár verið hjá Stjörnunni. Hann hefur undanfarin ár hjálpað Stjörnunni við að fá til sín danska leikmenn sem hafa vakið mikla athygli.

„Henrik er frábær markmannsþjálfari og hefur mikinn eldmóð og mikinn drifkraft. Hann kemur mjög skemmtilega inn í þjálfarateymið hjá okkur. Við erum mjög ánægðir með að hafa fengið hann til okkar,” segir Bjarni sem er einnig ánægður með dönsku leikmennina.

„Rasmus er auðvitað orðinn nánast hálfur Íslendingur. Hann talar íslensku og er hérna eins og hann sé heima hjá sér. Honum líður mjög vel og við erum mjög ánægðir með hann.”

„Hinir tveir eru að spila á Íslandi í fyrsta skipti. Þetta eru fínir strákar og eru fyrstu dagana að aðlagast lífinu.”

Fékk mikilvæga reynslu í Safamýrinni
Rasmus þekkja flestir Íslendingar sem hafa fylgst með Pepsi-deildinni undanfarin ár. Hann lék í hjarta varnarinnar hjá Eyjamönnum í nokkur ár, áður en hann gekk til liðs við Ull/Kisa í Noregi. Þar sleit hann krossband og var því frá keppni allt síðasta tímabil. Bjarni segir að Rasmus verði klár í fyrsta leik.

„Við höfum stýrt svolítið álaginu á Rasmusi í leikjunum að undanförnu. Hann finnur ekkert fyrir meiðslunum sem hann varð fyrir í fyrra.”

Bjarni er að hefja sitt annað tímabil sem þjálfari. Í fyrra stýrði hann Frömurum í Pepsi-deildinni sem féllu. Nú hefur hann tekið að sér töluvert stærra verkefni.

„Ég fékk mikilvæga reynslu í Safamýrinni í fyrra. Þetta er hinsvegar allt annað í Frostaskjólinu og erfitt að bera þetta saman.”

Verður strembið mót
„Íslandsmeistarnir frá því í fyrra hafa styrkt sig og svo hafa FH-ingarnir styrkt sig töluvert. Svo við gerum okkur grein fyrir því að þetta verður strembið mót.”

KR tekur á móti FH í fyrstu umferð Pepsi-deildarinnar á mánudaginn næstkomandi. Bjarni segir að það séu bæði kostir og gallar við það að mæta FH í fyrstu umferð.

„Við förum auðvitað í þann leik til að vinna eins og alla aðra leiki sem við förum í, og þá sérstaklega á heimavelli. Þeir eru sem betur fer einnig að spila sinn fyrsta leik í deildinni. Ég hef því þannig lagað engar áhyggjur að því,” segir Bjarni sem brosti að ummælum Heimis Guðjónssonar, þjálfara FH í viðtali á X-inu fyrr í apríl mánuði. Þar var Heimir með samsæriskenningar um tengsl KR við 365 miðla.

„Átti maður að gera eitthvað annað en að brosa að því? Ég gerði að minnsta kosti ekkert annað en að brosa að þessu,” segir Bjarni Guðjónsson þjálfari KR en Heimir vildi meina að 365 væri að vinna í að létta pressu af KR og setja á önnur lið.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner