Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 28. apríl 2015 12:45
Arnar Daði Arnarsson
Pepsi-deildin
Nýliðinn - „Bjarni og Gummi mynda frábært par"
Pálmi Rafn er nýliði hjá KR.
Pálmi Rafn er nýliði hjá KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net hitar upp fyrir Pepsi-deildina með því að kynna liðin í þeirri röð sem þeim er spáð. Meðfram því kynnum við einn nýliða í hverju liði, leikmann sem gekk í raðir þess fyrir tímabilið.

Nafn: Pálmi Rafn Pálmason
Aldur: 30 ára
Staða: Miðjumaður
Fyrri félög: Völsungur, KA, Valur, Stabæk, Lillestrøm


Hvaða væntingar hefur þú til sumarsins hjá liðinu: Ég hef þær væntingar að við verðum mjög ánægðir með spilamennsku okkar. Ef við verðum það þá erum við í fínum málum held ég.

Hvernig finnst þér búningur liðsins: Búningurinn er flottur. Liggur vel að líkamanum og samsvarar sér vel á flottum líkömum liðsfélaga minna allavega.

Í hvernig takkaskóm spilar þú: Nike

Hvert er þitt helsta afrek sem knattspyrnumaður: Að hafa spilað og æft í 25 ár og hafa alltaf jafn gaman af því að mæta á æfingar. Ásamt því að halda fótboltaáhuga konunnar í þokkalegu standi ennþá.

Hefð á leikdegi: Ég hef þá hefð að leggja mig í góðan 1 og 1/2 tíma á leikdegi.

Afhverju valdir þú að fara í KR: Stór og flottur klúbbur sem er með metnað fyrir því að vera alltaf í titilbaráttu. Þjálfarar með mjög flottar hugmyndir. Spennan fyrir því að spila fyrir framan stuðningsmenn KR.

Hvernig hafa fyrstu mánuðir hjá nýju liði verið: Mjög góðir. Höfum verið á nokkuð fínu róli og bætt okkur með hverri vikunni sem hefur liðið.

Ef þú fengir að velja einn leikmann úr öðru íslensku liði: Hef alltaf haldið mikið upp á Jóhann Helgason hjá KA, bæði innan vallar sem utan.

Hverju værir þú til í að breyta hjá félaginu: Ég hef ekki fundið fyrir neinni þörf á að breyta neinu hjá félaginu enda eru hlutirnir yfirleitt í topp standi hjá Stórveldinu.

Skilaboð til stuðningsmanna: Endilega fyllið völlinn á hverjum leik, skemmtið ykkur saman og með okkur og gerum þetta að frábæru sumri í Vesturbænum! Áfram KR!

Pálmi Rafn Pálmason gekk í raðir KR-inga fyrr í vetur eftir sex ára veru í Noregi, hjá Stabæk og Lilleström. Hann segist sjá breytingar á íslenska boltanum frá því hann var hér síðast.

„Þetta er örlítið sterkara en ég bjóst við og margir halda. Gæðin eru til staðar, það eru fullt af flottum leikmönnum hér. Yngri strákarnir eru alltaf að koma sterkir inn og það sést best í því, hve margir leikmenn eru að fara út í atvinnumennsku," segir Pálmi Rafn sem finnst umgjörðin hjá félögum hér á landi hafa tekið framförum.

„Hjá mörgum félögum í Norðurlöndunum er þetta ekkert betra en hérna heima. Það eru hinsvegar dæmi t.d. í Noregi þar sem vellirnir eru frábærir:"

Það búast flestir við harðri toppbaráttu á milli KR, FH og Stjörnunnar um Íslandsmeistaratitilinn. Öll þessi lið og fleiri til hafa styrkt sig töluvert fyrir tímabilið.

„Er þetta ekki það sem koma skal. Draumur íslenskra liða er að komast lengra í Evrópukeppnum. Ef það á að takast, þá verða liðin að leggja töluvert meira í verkefnið. Þetta er kannski eðlileg þróun ef lið ætlar að komast í riðlakeppni Evrópudeildanna. Það kostar sitt."

„Það er alltaf sama stefnan í Vesturbænum. Við erum ekki að fara inn í mót til að ná í silfur eða brons. Við erum hinsvegar með marga nýja leikmenn og nýja þjálfara. Það gæti tekið tíma að slípa þetta til. Á sama tíma hefur Stjarnan haldið mikið til sama hópnum og styrkt sig og FH-ingarnir hafa styrkt sig mjög mikið," segir Húsvíkingurinn sem segist vera ánægður með þjálfarateymið hjá KR.

„Ég er gríðarlega ánægður með Bjarna. Hann hefur sýnt mér hversu faglegur hann er í þessu. Hann þekkir þetta út og inn. Hann og Gummi mynda frábært par," segir Pálmi Rafn að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner