fim 28. maí 2015 09:30
Arnar Geir Halldórsson
Casillas hræðist ekki samkeppni við De Gea
Iker Casillas
Iker Casillas
Mynd: Getty Images
Iker Casillas, markvörður Real Madrid, óttast ekki samkeppnina fari svo að David De Gea gangi til liðs við spænska risann í sumar.

„Ég vil enda ferilinn hérna. David er frábær strákur. Við þekkjumst úr landsliðinu og þó við séum ekki sérstaklega nánir þá náum við vel saman", segir Casillas.

Hann hefur mátt sæta gagnrýni á tímabilinu og þykir ljóst að Real Madrid mun kaupa markvörð í sumar. Casillas er hokinn af reynslu og tekur samkeppninni fagnandi.

„Hann á framtíðina fyrir sér og ef hann, eða einhver annar, kemur þá mun ég taka vel á móti honum. Við munum berjast um stöðuna, líkt og við höfum gert hjá landsliðinu".

„Ég er tilbúinn að berjast fyrir stöðunni. Það stendur ekki í samningnum mínum að Iker Casillas eigi alltaf að vera númer eitt. Þú verður að berjast fyrir þínu. Þjálfarinn tekur ákvarðanirnar. Markmiðið er að vinna leiki og bikara og ég get fullyrt það að ég verð hérna á næsta tímabili", segir Casillas, hvergi banginn.
Athugasemdir
banner
banner