Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
banner
   sun 28. maí 2017 21:55
Magnús Már Einarsson
Gústi: Ef þú mætir ekki karlmönnum með karlmennsku þá tapar þú
Gústi var ekki sáttur með sína menn í kvöld.
Gústi var ekki sáttur með sína menn í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ef þú mætir ekki karlmönnum með karlmennsku þá tapar þú," sagði Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnis, ósáttur eftir 3-1 tap gegn Stjörnunni á heimavelli í kvöld.

Stjarnan var sterkari aðilinn allan leikinn og Fjölnismenn sáu ekki til sólar.

„Þeir voru miklu, miklu sterkari en við á öllum sviðum. Þetta eru karlmenn í þessu Stjörnuliði og þeir mæta í leikina á sínum styrkleikum. Við þurfum að mæta þeim þar en við gerum það ekki. Við ætluðum að spila einhvern fancy bolta. Þeir unnu alla bolta. Fyrsta, annan og þriðja. Ef þú mætir þeim ekki þá skora þeir fullt af mörkum á þig."

„Við fengum lítið af sénsum. Þeir voru bara grimmir á meðan við vorum ekki grimmir í dag. Við sköpuðum lítið og áttum ekkert skilið út úr þessum leik."

Fjölnismenn náðu ekki að fylgja eftir góðum sigri á FH í síðustu umferð.

„Ég sagði við strákana eftir leik að við þurfum að læra af þessu. Við vinnum FH á útivelli í síðasta leik. Við komum á heimavöll gegn karlmannaliði í dag og þú þarft að mæta þessu til að eiga séns."

Mees Siers var ekki með Fjölni í dag frekar en gegn FH í síðasta leik. „Hann er meiddur og hefur verið lengur frá en við ætluðum. Ætli það sé ekki vika eða tvær í hann," sagði Gústi.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner