Haaland verður með riftunarákvæði - Real Madrid ætlar að fá Saliba - Antony til Newcastle?
   sun 28. júlí 2024 21:22
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Frábær FRAMmistaða í Úlfarsárdal - Víkingar skoruðu fimm gegn HK
Fred Saraiva skoraði tvö fyrir Fram gegn Val
Fred Saraiva skoraði tvö fyrir Fram gegn Val
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ólafur Íshólm Ólafsson var magnaður í marki Fram
Ólafur Íshólm Ólafsson var magnaður í marki Fram
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúnar Kristinsson hefur verið að gera ágætis hluti í Úlfarsárdal
Rúnar Kristinsson hefur verið að gera ágætis hluti í Úlfarsárdal
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nikolaj Hansen gerði tvö mörk fyrir Víking
Nikolaj Hansen gerði tvö mörk fyrir Víking
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Súper-subið' Helgi Guðjónsson kom inn af bekknum og skoraði
'Súper-subið' Helgi Guðjónsson kom inn af bekknum og skoraði
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fram vann magnaðan 4-1 sigur á Val í 15. umferð Bestu deildar karla í Úlfarsárdal í kvöld og á sama tíma unnu Íslands-og bikarmeistarar Víkings 5-1 sigur á HK í Víkinni.

Veðuraðstæður í Úlfarsárdal settu sinn svip á leikinn. Rok og rigning voru aðstæður dagsins og byrjuðu Framarar með vindinn í bakið.

Framarar fóru vel af stað. Það tók aðeins tíu mínútur að fá fyrsta markið en það var smá heppnisstimpill yfir því. Már Ægisson átti skot við D-bogann, boltinn af Herði Inga Gunnarssyni og yfir Frederik Schram í markinu.

Heimamenn fengu vítaspyrnu fimmtán mínútum síðar. Bjarni Mark Duffield reif Má Ægis niður í teignum og var það Fred Saraiva sem fór á punktinn og skoraði.

Þeir hömruðu járnið meðan það var heitt. Kennie Chopart var næstur í röðinni. Markið kom sex mínútum eftir vítaspyrnuna, en hann fékk að vaða upp allan völlinn áður en hann hamraði boltanum í fjærhornið. Varnarleikur Vals ekki upp á marga fiska.

Patrick Pedersen tókst að minnka muninn á 39. mínútu. Kristinn Freyr Sigurðsson sendi boltann á Patrick sem setti boltann í netið.

Valsmenn voru með vindinn í bakið í þeim síðari en náði ekki að nýta hann jafnvel og Framarar.

Sóknarþunginn var gríðarlegur. Tryggvi Hrafn Haraldsson átti tilraun í stöng þegar tæpar tvær mínútur voru liðnar af síðari hálfleik og hjálpaði vindurinn aðeins til þar.

Valsmenn voru allt í öllu en Ólafur Íshólm Ólafsson, markvörður Fram, var með allt í teskeið. Hann varði frábært skot Gylfa Þórs Sigurðssonar og síðan skalla Patrick eftir hornspyrnu Gylfa. Sá var í essinu sínu.

Jakob Franz Pálsson átti þá gott skot að marki á 64. mínútu en aftur varði Ólafur frábærlega.

Framarar gerðu út um leikinn á 72. mínútu. Kennie var með boltann í vítateig Fram, kom honum á Má sem skaust upp völlinn. Hann lék á einn Valsara áður en hann kom boltanum á Fred. Hann lék á annan varnarmann áður en hann gerði fjórða markið og síðasta naglann í kistu Vals.

Frábær 4-1 sigur Fram staðreynd. Fram er með 22 stig í 7. sæti en Valur í 3. sæti með 28 stig og missti þarna af góðu tækifæri til að komast upp fyrir Blika og í annað sætið.

Íslandsmeistararnir unnu sannfærandi sigur á HK

Víkingur hafði sigur gegn HK, 5-1, í Víkinni í kvöld.

Heimamenn voru stálheppnir að lenda ekki undir eftir tólf mínútna leik. George Nunn átti fyrirgjöf á Birni Breka Burknason sem skallaði átt að marki. Ingvar Jónsson, markvörður Víkings, virtist verja boltann í slá áður en Víkingar björguðu á línu.

Meistararnir voru fljótir að refsa. Í næstu sókn kom Karl Friðleifur Gunnarsson boltanum á Nikolaj Hansen sem skoraði.

Gestirnir skoruðu sanngjarnt jöfnunarmark fimm mínútum síðar. Atli Þór Jónasson lék á Ingvar í markinu og sendi síðan boltann fyrir markið og þar kom Nunn og kláraði.

Víkingar tóku völdin eftir það. Hansen gerði annað mark sitt á 39. mínútu. Danijel Dejan Djuric kom boltanum á Niko sem náði að renna sér í boltann. Stefán Stefánsson varði boltann, en Niko fékk hann aftur í sig og í netið.

Heimamenn héldu áfram að sækja og kom þriðja markið rétt áður en flautað var til loka fyrri hálfleiks. Gísli Gottskálk Þórðarson kom með sendinguna á Ara Sigurpálsson, sem tók snúning áður en hann setti boltann í netið.

Í síðari hálfleiknum voru Víkingar með algera yfirburði.

Helgi Guðjónsson kom inn af bekknum og skoraði fjórða mark Víkinga. Ari kom með laglega sendingu inn í teiginn á Helga sem skoraði örugglega.

Þremur mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma batt Gunnar Vatnhamar endahnútinn. Davíð Örn Atlason fékk boltann hinum megin við vítateiginn eftir hornspyrnu Viktors Örlygs. Hann kom honum á Gunnar sem gerði fimmta markið.

Öruggur og sanngjarn sigur Víkinga sem eru með 33 stig á toppnum en HK áfram í 10. sæti með 14 stig.

Úrslit og markaskorarar:

Fram 4 - 1 Valur
1-0 Már Ægisson ('10 )
2-0 Frederico Bello Saraiva ('26 , víti)
3-0 Kennie Knak Chopart ('32 )
3-1 Patrick Pedersen ('39 )
4-1 Frederico Bello Saraiva ('72 )
Lestu um leikinn

Víkingur R. 5 - 1 HK
1-0 Nikolaj Andreas Hansen ('14 )
1-1 George Johannes Nunn ('19 )
2-1 Nikolaj Andreas Hansen ('39 )
3-1 Ari Sigurpálsson ('44 )
4-1 Helgi Guðjónsson ('77 )
5-1 Gunnar Vatnhamar ('87 )
Lestu um leikinn
Besta-deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Breiðablik 21 14 4 3 48 - 25 +23 46
2.    Víkingur R. 20 13 4 3 47 - 23 +24 43
3.    Valur 21 10 5 6 49 - 32 +17 35
4.    FH 21 9 5 7 36 - 35 +1 32
5.    ÍA 21 9 4 8 40 - 31 +9 31
6.    Stjarnan 21 9 4 8 39 - 35 +4 31
7.    KA 21 7 6 8 32 - 37 -5 27
8.    Fram 21 7 5 9 28 - 29 -1 26
9.    KR 20 5 6 9 34 - 39 -5 21
10.    HK 21 6 2 13 23 - 51 -28 20
11.    Vestri 21 4 6 11 22 - 42 -20 18
12.    Fylkir 21 4 5 12 26 - 45 -19 17
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner