fim 28. ágúst 2014 21:28
Magnús Már Einarsson
Rúnar Páll: Stór stund fyrir okkur alla
Rúnar Páll Sigmundsson.
Rúnar Páll Sigmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Það var frábært upplifun að spila á þessum frábæra velli á móti þessu frábæra liði. Það var ótrúleg stemning hjá okkar fólki og á vellinum. Þetta var stór stund fyrir okkur alla," sagði Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunna við Fótbolta.net eftir 6-0 tap liðsins gegn Inter í kvöld.

Stjörnumenn áttu lítið í leiknum í kvöld en Rúnar segir að það sé enginn skömm af því að detta út gegn Inter eftir frábæra frammistöðu í Evrópudeildinni.

,,Inter liðið er firnasterkt og þeir voru miklu betri en við í þessum leik. Mér fannst við byrja ágætlega fyrstu 20 mínútrnar en síðan fáum við mark í andlitið og það er erfitt. Þeir skoruðu mjög flott mörk eftir það. Það hefði kannski verið hægt að koma í veg fyrir tvö mörk þegar við erum að leyfa þeim að snúa og skjóta."

,,Það eru þvílík gæði i þessu liði og við göngum sáttir frá borði. Þetta var frábær keppni. Það að spila í umspili á móti Inter er gríðarlega stórt. Þrátt fyrir að við höfum tapað 6-0 þá förum við sáttir frá borði,"
sagði Rúnar en Stjörnumenn munu seint gleyma leiknum í kvöld.

,,Þetta hefur verið þvílíkt ævintýri. Það voru ótrúleg margir á vellinum og stemningin hjá Inter var geðveik. Þetta var ótrúleg upplifun fyrir drengina og þá sem starfa hjá félaginu. Þetta er stór stund sem gleymist seint. Það er ekki á hverjum degi sem menn dragast á móti Inter sem vann Meistaradeildina 2010."
Athugasemdir
banner
banner
banner