banner
   fös 28. ágúst 2015 21:21
Elvar Geir Magnússon
Ólafsvík
Futsal: Þýskalandsmeistararnir í basli með Ólsara
Ólsarar luku keppni með þrjú stig.
Ólsarar luku keppni með þrjú stig.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Víkingur Ólafsvík tapaði 3-5 fyrir Hamborg Panthers frá Þýskalandi í síðasta leik E-riðils forkeppni Futsal Cup í kvöld. Leikurinn var mikil skemmtun og komu Ólsarar þýska liðinu í opna skjöldu.

Hamborgarliðið er Þýskalandsmeistari í Futsal en þrátt fyrir að æfa íþróttina ekki sérstaklega var Ólafsvíkurliðið á löngum köflum betra liðið ef eitthvað var.

Staðan var markalaus eftir fyrri hálfleik þar sem Ólsarar fengu betri færi en Hroje Tokic kom svo heimamönnum í 1-0. Hamborg snéri dæminu við og staðan skyndilega orðin 1-3. En Kristófer Eggertsson minnkaði muninn með draumaskoti af löngu færi sem fór alveg upp við samskeytin og jafnaði svo úr 10 metra víti.

Leikmenn Hamborgarliðsins létu sig falla við minnstu snertingu og fengu ansi ódýrt 10 metra víti sem þeir tóku forystuna úr 3-4 og bættu svo öðru við rétt fyrir leiksins. Glæsileg frammistaða Ólsara en sigurinn var þýskur.

Hamborgarliðið lauk riðlinum með fullt hús, 9 stig. Aðeins sigurvegararnir fá sæti í milliriðli og eru það því Þjóðverjarnir sem fara brosandi af landinu.

Flamurtari Vlore frá Albaníu endaði í öðru sæti með 6 stig eftir 3-2 sigur gegn Differdange frá Lúxemborg fyrr í dag (Smelltu hér til að sjá mörkin úr þeim leik). Víkingur Ólafsvík var í þriðja sæti með þrjú stig en Differdange rak lestina stigalaust.

Það var góð mæting á leiki mótsins í Ólafsvík og góð stemning en aðalatriði Víkinga er Íslandsmótið og tryggja sér sæti í Pepsi-deildinni. Futsal-mótið var aðeins krydd. Staða liðsins í 1. deild er góð og liðið kemst upp á þriðjudag ef það vinnur Grindavík á útivelli.
Athugasemdir
banner
banner
banner