mið 28. september 2016 15:15
Magnús Már Einarsson
Viðtal
Heimir Guðjóns: Eitt og annað sem er eftir
Heimir Guðjónsson.
Heimir Guðjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Mér hefur liðið vel í FH. Það eru góðir menn sem eru að stjórna þar, frábær aðstaða og góðir leikmenn," sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, við Fótbolta.net í dag eftir að hann skrifaði undir nýjan tveggja ára samning við félagið.

„FH hefur gert mikið fyrir mig og ég vonandi skilað einhverju til baka. Þetta hefur gengið ágætlega. Mér fannst réttast að halda áfram. Auðvitað er eitt og annað eftir. Við viljum gera vel í Evrópukeppni og í bikarnum þar sem ekkert hefur gengið."

Heimir hefur á hverju hausti undanfarin ár verið orðaður við sitt gamla félag KR. „Ég er ekkert farinn að hugsa þangað. Mér hefur liðið vel í FH og ég sé enga ástæðu á þessum tímapunkti til að fara að breyta því. Maður veit aldrei hvað tíminn leiðir í ljós."

Möguleikar í Evrópukeppninni
FH tapaði gegn írska liðinu Dundalk í annari umferðinni í Meistaradeildinni í sumar en Heimir telur að FH hafi burði til að gera betur í Evrópukeppni á næsta ári.

„Til að komast áfram þá þarftu að spila tvo mjög heilsteypta leiki. Við náðum því kannski ekki í þessum tveikmur leikjum á móti Dundalk," sagði Heimir. „Við lítum svo á að það séu möguleikar í Evrópukeppninni. Við erum alltaf að læra meira og meira þar og það vonandi nýtist okkur í framhaldinu."

Heimir segir að talsverður munur sé fyrir FH að spila í Pepsi-deildinni og í Evrópukeppnunum.

„Auðvitað eru þetta viðbrigði fyrir okkur og leikmennina. Fitness levelið hjá liðum í Evrópukeppninni er hærra, tempóið er meira, þú hefur minna tíma á boltanum og þarft að vera fljótari að hugsa. Við þurfum að nýta okkur reynsluna til að gera betur."

Gætu reynt við leikmenn á Íslandi
Íslandsmeistararnir ljúka tímabilinu gegn ÍBV á laugardag. Heimir segist reikna með að halda svipuðum leikmannahópi næsta sumar.

„Ég reikna með því. Flestir leikmenn eru á áframhaldandi samningi en það eru einhverjir sem á eftir að semja við. Við höfum verið stöðugir í leikmannamálunum og við viljum hafa það þannig áfram. Auðvitað verða samt alltaf einhverjar breytingar á milli ára, það er óhjákvæmilegt."

„Við viljum styrkja liðið og gera það betra. Það er ein umferð eftir af mótinu en þegar það er búið þá setjumst við niður og förum að líta í kringum okkur,"
sagði Heimir en ætlar hann að leita að liðsstyrk innalands eða erlendis?

„Við eigum eftir að skoða það. Auðvitað eru leikmenn hérna á Íslandi sem hafa staðið sig vel og það getur vel verið að við reynum við einhverja leikmenn hérna heima. Það er líka hægt að finna góða leikmenn erlendis og við lítum þangað líka," sagði Heimir.
Athugasemdir
banner
banner
banner