Pickford klárar ferilinn hjá Everton - Arsenal gæti fengið Kolo Muani - Van Nistelrooy leitar til Man Utd
   mán 29. apríl 2013 13:00
Fótbolti.net
Spá þjálfara og fyrirliða í 2.deild karla: 12. sæti
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Raggi Óla
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Eyjólfur Garðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Vilbogi M. Einarsson
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í tólta og neðsta sæti í þessari spá var Hamar sem fékk 39 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Hamar.

Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ?
11. ?
12. Hamar 39 stig

12. Hamar
Lokastaða í fyrra: 9. sæti í 2. deild
Eftir að hafa verið lengi vel í fallbaráttu í 2. deildinni í fyrra björguðu Hamarsmenn sér endalega frá falldraugnum í næstsíðustu umferð og enduðu að lokum í 9. sæti deildarinnar. Hamarsmenn eru að hefja sitt sjötta ár í annarri deildinni en samkvæmt spá fyrirliða og þjálfara er erfitt sumar fram undan í Hveragerði. Það þarf líklega ekki að koma á óvart ef horft er á gengi Hamars í vetur og breytingar á leikmannahópnum frá því í fyrra.

Stærstu breytingarnar urðu í byrjun árs þegar þjálfaranum Salih Heimi Porca var óvænt sagt upp störfum. Hamar gerði nýjan tveggja ára samning við Salih Heimi síðastliðið haust en vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar á deildinni þurfti að skera niður kostnað og nýttu Hamarsmenn þess vegna uppsagnarákvæði í samningnum við Salih Heimi í byrjun janúar.

Við keflinu tóku Ágúst Örlaugur Magnússon og Kristmar Geir Björnsson en þeir munu í sameiningu stýra Hamarsmönnum í sumar. Ágúst Örlaugur hefur verið fyrirliði og lykilmaður í liði Hamars undanfarin ár en Kristmar Geir var spilandi þjálfari liðsins 2006 og 2007. Báðir hafa þeir spilað með Hamarsmönnum á undirbúningstímabilinu í vetur. Ljóst er að það mun mæða mikið á þjálfurunum innan sem utan vallar enda er reynslan ekki mikil í liðinu. Fyrirliði Hamars í sumar verður hinn tvítugi Ingþór Björgvinsson en hann hefur þrátt fyrir ungan aldur leikið fimm tímabil í meistaraflokki.

Sterkir leikmenn hafa horfið á braut frá því á síðasta tímabili og þar má meðal annars nefna enska miðvörðinn Andy Pews sem er í dag fyrirliði Selfyssinga. Abdoulaye Ndiaye og Sene Abdalha eru einnig farnir eftir að hafa verið á láni frá Selfyssingum í fyrra en þeir skoruðu samanlagt fjórtán mörk á síðasta tímabili. Í staðinn hafa Selfyssingar fengið marga unga leikmenn í sínar raðir. Þar er meðal annars um að ræða stráka frá Selfossi auk þess sem Stefán Hafsteinsson og Óskar Smári Haraldsson komu á láni frá Tindastóli. Ekki er útilokað að Hvergerðingar sæki frekari liðsstyrk áður en mótið hefst í næstu viku.

Gengi Hamarsmanna í Lengjubikarnum var dapurt en liðið vann einungis einn leik af fimm. Þá fengu Hvergerðingar tvo slæma skelli gegn HK og Aftureldingu þar sem lokatölur urðu 8-0 og 6-0. Því er ljóst að Ágúst Örlaugur og Kristmar eiga mikið verkefni fyrir höndum við að stilla saman strengina áður en alvaran hefst í næstu viku.

Styrkleikar: Ágúst Örlaugur er mikill stemningskall og hann gæti smitað það út í leikmannahópinn. Grýluvöllur er öflugur heimavöllur sem hefur skilað Hamarsmönnum fullt af stigum í gegnum tíðina. Samheldinn hópur og góð liðsheild.

Veikleikar: Leikmannahópurinn er veikari en í fyrra og spurning er hvernig liðið kemur út eftir miklar breytingar. Reynslan er lítil í hópnum og margir leikmenn hafa ekki spilað mikið í meistaraflokki. Hamarsmenn unnu einungis einn útileik í annarri deildinni í fyrra og betur má ef duga skal.

Lykilmenn: Ágúst Örlaugur Magnússon, Björn Metúsalem Aðalsteinsson og Ingþór Björgvinsson.


Þjálfarinn: Ágúst Örlaugur Magnússon
,,Þessi spá kemur okkur ekkert á óvart. Hópurinn hefur breyst töluvert frá því í fyrra, ásamt því að nýjir og óreyndir þjálfarar hafa tekið við liðinu. En við teljum okkur vera með lið sem getur endað mun ofar en þetta. Hópurinn hjá okkur er mjög öflugur og margir mjög efnilegir leikmenn sem ég er klár á að munu blómstra í sumar."

Komnir:
Atli Hjaltested frá Ægi
Bjarki Sigurðsson frá Val
Daníel Fernandes Ólafsson frá Reyni Sandgerði
Eiríkur Raphael Elvy frá Árborg
Helgi Andrésson frá Fram
Ingþór Birkir Árnason frá Selfyssingum
Kristmar Geir Björnsson frá Tindastóli
Óskar Smári Haraldsson frá Tindastóli
Sigurður Kristmundsson frá Selfyssingum
Stefán Hafsteinsson frá Tindastóli
Vignir Daníel Lúðvíksson frá Álftanesi

Farnir:
Abdoulaye Ndiaye
Andy Pew í Selfoss
Ari Páll Ísberg í Fylki
Ingvi Rafn Óskarsson í Selfoss
Sene Abdalha
Sturlaugur Haraldsson í Gróttu
Örn Rúnar Magnússon í ÍH


Þrír fyrstu leikir Hamars:
11. maí: Sindri (H)
18. maí: Grótta (Ú)
23. maí: HK (H)
Athugasemdir
banner
banner