banner
   fös 29. apríl 2016 11:25
Elvar Geir Magnússon
Jarlinn ekki í fyrstu umferðum Pepsi-deildarinnar
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gunnar Jarl Jónsson, einn besti dómari landsins, verður ekki með flautuna í fyrstu fimm umferðum Pepsi-deildarinnar.

Gunnar er á leið til Aserbaídsjan þar sem hann mun dæma í lokakeppni Evrópumóts U17 landsliða. Búið er að stækka keppnina og er hún nú skipuð 16 liðum.

„Það er leiðinlegt að missa af byrjun mótsins enda mikil stemning þegar boltinn byrjar að rúlla," segir Gunnar.

„Að sama skapi er þetta risastórt verkefni fyrir mig þarna úti. Þetta verður góður undirbúningur. Dagskráin mun standa af séræfingum og fyrirlestrum svo maður æfir eins og atvinnumaður. Maður ætti að koma klár í slaginn," segir Gunnar.

Gunnar var valinn besti dómari Pepsi-deildarinnar af Fótbolta.net 2014.

Pepsi-deildin fer af stað á sunnudaginn en á miðnætti í kvöld verður opinberað hvaða dómarar munu starfa í fyrstu fjórum leikjum mótsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner