Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   lau 29. apríl 2017 09:30
Magnús Már Einarsson
Ási Arnars: Við stefnum á toppbaráttu
Ásmundur Arnarsson.
Ásmundur Arnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fram er spáð 7. sæti í Inkasso-deildinni í spá fyrirliða og þjálfara fyrir sumarið.

„Spáin kemur í sjálfu sér ekki mikið á óvart," segir Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fram. „Fyrir mótið virðast Fylkir, Keflavík og Þróttur vera með sterkustu liðin en síðan koma mörg önnur lið sem gætu hæglega komið sér í toppbáráttuna einnig. Mér finnst vera mörg öflug lið í deildinni og vonast eftir jöfnu og spennandi móti."

Ásmundur er á öðru ári með lið Fram en í fyrra endaði liðið í sjötta sæti deildarinnar. „Verkefnið okkar er að byggja upp sterkt lið og við höfum verið að nota mikið af ungum og efnilegum leikmönnum í vetur og í fyrra. Það er að myndast sterkur og mjög skemmtilegur kjarni af ungum uppöldum Frömurum sem er mjög ánægjulegt. Það eru mun minni breytingar milli ára núna en verið hefur undanfarin ár og við reynum að byggja ofan á það sem unnið var með í fyrra."

„Við erum með unga leikmenn sem byrjuðu að spila í fyrra og eru reynslunni ríkari og höfum tekið fleiri unga menn inn í vetur sem hafa staðið sig vel. Við erum með fjóra erlenda leikmenn, tvo Króata sem spiluðu með okkur í fyrra auk Simon Smidt sem kom frá ÍBV og þekkir það vel að spila Íslandi og Hogna Madsen sem er frá Færeyjum og hefur smollið vel inn í þetta hjá okkur. Svo eru flottir reynsluboltar í liðinu."

„Andinn er góður og það hefur verið góður stígandi í þessu hjá okkur í vetur. Í fyrra enduðum við í 6.sæti og við viljum gera betur í ár. Við stefnum á toppbaráttu eins og væntanlega flest önnur lið í deildinni og viljum sjá Fram í efstu deild á næsta ári,"
sagði Ásmundur en Framarar hafa fengið nokkra nýja leikmenn í vetur.

„Við höfðum skýra sín eftir síðasta ár hvers konar leikmenn við vildum fá inn í hópinn okkar og ég tel að það hafi heppnast nokkuð vel. Við höfum fengið tvo mjög flotta markverði í þeim Atla Gunnari Guðmundssyni sem kom frá Huginn og Hlyni Erni Hlöðverssyni sem kom nú í vor frá Blikum. Við fengum tvö Framara heim í þeim Guðmundi Magnússyni og Benedikt Októ Bjarnasyni auk tveggja erlendra leikmanna í Simon Smidt og Hogna Madsen. Ég er sáttur við hópinn í dag og hlakka til að fara í gegnum sumarið með þessum strákum," sagði Ásmundur og bætti við að hann reikni ekki með að fá frekari liðsstyrk fyrir mót.

Líkt og í fyrra þá uppfyllir aðstaða Fram í Úlfarsárdal ekki skilyrði til að spila í Inkasso-deildinni og því leikur liðið heimaleikina sína á Laugardalsvelli

„Laugardalsvöllur gaf ágætlega sem heimavöllur í fyrra og hefur gert það gegnum árin. Meðan aðstaðan er ekki klár í Úlfarsárdalnum þá er þetta okkar heimavöllur og við reynum að hafa hann eins öflugan og hægt er," sagði Ásmundur.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner