Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   mán 29. maí 2017 18:00
Magnús Már Einarsson
Bestur í Inkasso: Var hræddur um að ég myndi aldrei ná mér
Emil Ásmundsson (Fylkir)
Emil fagnar marki í Kórnum í gær.
Emil fagnar marki í Kórnum í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég er sáttur með minn leik, gaman að sjá boltann syngjandi í netinu tvisvar sinnum, en liðið sem heild spilaði frábærlega og við erum mjög ánægðir á 50 ára afmæli félagsins," sagði Emil Ásmundsson við Fótbolta.net í dag.

Emil skoraði tvívegis í 3-0 sigri Fylki á HK í Inkasso-deildinni í gær og hann er leikmaður umferðarinnar að þessu sinni.

Fylkismenn fögnuðu 50 ára afmæli sínu í gær og þeir fara vel af stað í Inkasso-deildinni. Fylkir er með tíu stig eftir fjóra leiki.

„Ég er virkilega ánægður með gengi okkar núna í byrjun sumars. Þetta er glæsilegur hópur, bæði leikmenn, þjálfarar og allir sem vinna í kringum klúbbinn," sagði Emil en markmið Fylkismanna er að endurheimta sætið í Pepsi-deildinni.

„Það er að sjálfsögðu okkar markmið fyrir sumarið og ég tel okkur geta náð því markmiði. Við vitum allir sem einn hvað býr í okkur og við ætlum að halda áfram að láta verkin tala."

Fylkir féll úr Pepsi-deildinni síðastliðið haust en Emil íhugaði ekki að fara frá liðinu í kjölfarið.

„Það er auðvitað leiðinlegt að falla úr efstu deild og maður fékk smá sjokk. En um leið að maður jafnaði sig og sá hvernig allir í félaginu voru að leggja upp næsta tímabil þá var aldrei neitt annað í stöðunni en að vera áfram."

Emil kom aftur heim til Fylkis í fyrra eftir þriggja ára dvöl hjá Brighton & Hove Albion á Englandi.

„Tími minn hjá þeim var bæði skemmtilegur og svo líka ógeðslega leiðinlegur. Ég var fljótur að aðlagast leikstílnum og aðstæðum í Englandi og fyrsta eina og hálfa árið var ég á jákvæðri leið. Ég fékk smá smjörþef af aðalliðinu í lok tímabils 2014 og var svo mikið að æfa með þeim á undirbúningstímabilinu þar á eftir.
Ég fór í æfingaferðina með þeim og spilaði æfingaleiki."

„Ég lenti svo í leiðinlegum hnémeiðslum og var frá í eitt og hálft ár. Það var bara hreint út sagt það leiðinlegasta sem ég hef upplifað. Ég var hræddur um að ég myndi aldrei ná mér á tímabili því þetta gekk ekki svo vel."


Brighton komst upp í ensku úrvalsdeildina á dögunum og Emil var ánægður með að sjá það.

„Ég verð alltaf stuðningsmaður Brighton og það var virkilega gaman að sjá þá komast upp, þeir eiga þetta skilið. Þeir eru búnir að vera mjög nálægt þrisvar sinnum en tapað í playoffs. Ég mun fylgjast vel með þeim í úrvalsdeildinni á næsta tímabili," sagði Emil að lokum.

Sjá einnig:
Bestur í 3. umferð - Víðir Þorvarðarson (Þróttur)
Bestur í 2. umferð - Andy Pew (Selfoss)
Bestur í 1. umferð - Andrés Már Jóhannesson (Fylkir)
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner