,,Þetta var fínn vinnusigur og hafðist hægt og rólega þegar leið á seinni hálfleikinn," sagði Ólafur Þórðarson þjálfari Víkings Reykjavíkur eftir 0-2 sigur á BÍ/Bolungarvík á Ísafirði í dag.
,,Þetta var mjög jafn leikur í fyrri hálfleik en svo eftir því sem mínúturnar liðu í seinni tókum við meira og meira yfir og kláruðum þetta nokkkuð vel."
Víkingur fékk vítaspyrnu sem fyrra mark þeirra kom úr en hana dæmdi Kristinn Jakobsson þrátt fyrir að brotið hafi virst vera tveimur metrum fyrir utan vítateig. Ólafur kvartaði undan einelti dómara í sinn garð eftir síðasta leik en telur hann að væl í fjölmiðlum hafi hjálpað honum í dag?
,,Nei ég gat ekki séð það í byrjun þegar Viktor slapp einn í gegn og markmaðurinn tók hann niður," svaraði Ólafur.
,,Við unnum bara vel fyrir þessu, ég gat ekki betur séð. Kláruðum færin okkar vel og fengum ekki á okkur mark, það var það sem við lögðum upp með."
Nánar er rætt við Ólaf í sjónvarpinu að ofan en liðið fór í 2. sæti 1.deildarinnar í dag.
,,Þetta er bara hver slagurinn á fætur öðrum, það virðast allir geta unnið alla. Það er lykilatriðið að halda haus í þesu og halda áfram að vera góðir í því sem við erum að gera. Ef það tekst þá erum við í ágætis málum," sagði hann en ætlar hann ekki með liðið upp?
,,Það er stefnan en það kemur ekki í ljós fyrr en í september. við verðum að vinna nokkur stríð áður en það gerist."
Athugasemdir