Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mán 29. júní 2015 13:15
Magnús Már Einarsson
Matti Villa: Besta mark sem ég hef skorað
Matthías tekur hjólhestaspyrnu í landsleik.
Matthías tekur hjólhestaspyrnu í landsleik.
Mynd: Getty Images
„Ég held að þetta sé besta markið sem ég hef skorað. Ég hitti hann allavega ótrúlega vel í þetta skiptið," sagði Matthías Vilhjálmsson framherji Start við Fótbolta.net í dag.

Matthías skoraði stórglæsilegt mark með hjólhestaspyrnu í 3-1 sigri á á Álasund um helgina.

„Það hafa verið virkilega góð viðbrögð við markinu sem er náttúrulega mjög gaman og ég hef fengið margar góðar kveðjur sem ég kann vel að meta. Ég sá líka að þetta kom á 101greatgoals.com þannig að umfjöllunin hefur verið mikil," sagði Matthías léttur í bragði.

Matthías hefur áður skorað með hjólhestaspyrnu bæði í Noregi og á Íslandi. Hann segist ekki eiga eina góða skýringu á því af hverju hann er svona öflugur í hjólhestaspyrnunum.

„Ég hef átt þetta til í leikjum en mun oftar á að æfingum sem enginn man eftir. Við æfðum þetta kannski smá á Ísafirði í denn þegar það var svo snjóþungt á veturna en annars veit ég ekki."

„Ég hef reyndar alltaf verið ágætur að halda boltanum með mann í bakinu þannig að þetta var oft leið til að skjóta án þess að mótherjinn náði honum,"
sagði Matthías.

Matthías hefur spilað vel í Noregi á þessu tímabili en hann er kominn með sex mörk í tólf leikjum með Start.

Sjá einnig:
Myndband: Stórkostleg hjólhestaspyrna Matthíasar
Athugasemdir
banner
banner