þri 29. júlí 2014 16:55
Elvar Geir Magnússon
Leikmaður Sindra fékk 12 mánaða keppnisbann
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Redinaldo Rodrigues Reis, leikmaður Sindra á Höfn í Hornafirði, var í dag dæmdur í tólf mánaða keppnisbann eftir líkamsárás í 2. flokksleik á Hellissandi.

Atvikið átti sér stað í leik Sindra gegn Snæfellsnesi.

Reis missti stjórn á skapi sínu í leiknum og réðst á leikmann Snæfellsness með þeim afleiðingum að hann þurfti að fara með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landsspítalann í Reykjavík.

Í yfirlýsingu frá stjórn Sindra var málið sagt litið alvarlegum augum og að leikmanninum verði hjálpað til að koma í veg fyrir að sambærilegt atvik endurtaki sig. Leitað verður aðstoðar barnaverndaryfirvalda á Höfn og fagfólks í þeirri viðleitni.

Samkvæmt heimildum Vísis sparkaði Reis tvisvar sinnum hið minnsta í höfuð leikmanns Snæfellsness og kýldi hann á meðan hann lá á jörðinni. Þá missti hann meðvitund og læknir var kallaður til.

Betur fór en á horfðist og var leikmaður Snæfellsness útskrifaður af sjúkrahúsi daginn eftir árásina.

Þetta er ekki lengsta leikbann sem fótboltamaður hefur verið dæmdur í á Íslandi. Nokkrum sinnum áður hefur leikmaður fengið tólf mánaða bann en ekki hefur refsingin verið harðari en það.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner