Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 29. ágúst 2016 16:30
Elvar Geir Magnússon
Orri fékk sitt fyrsta spjald eftir 48 spjaldalausa leiki
Orri Sigurður Ómarsson.
Orri Sigurður Ómarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðmundur Ársæll með spjaldið á lofti.
Guðmundur Ársæll með spjaldið á lofti.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Það teljast nú ekki stórar fréttir þegar miðvörður fær að sjá gula spjaldið í fótboltaleik. Nema í tilfelli Orra Sigurðar Ómarssonar, varnarmanns Vals.

Orri fékk gula spjaldið í leik Vals og KR í gær en fram að því hafði hann farið í gegnum 48 leiki fyrir Val í deild og bikar án þess að fá áminningu. Það þarf ansi mikil klókindi til að ná því.

„Ég er þannig leikmaður að ég er ekkert í því að henda mér i asnalegar tæklingar eða einhver óþarfa brot. Margir leikmenn og sérstaklega varnarmenn henda sér i óþarfa tæklingar," segir Orri.

„Það var einn góður þjálfari sem sagði við mig: "Ég vil ekki að þú sért að tækla, stattu í lappirnar. Þegar leikmenn þurfa að tækla þýðir það að staðsetningin þeirra hefur verið röng í atvikinu." Það er nokkurn veginn það sem ég hef tileinkað mer, að staðsetja mig betur þannig að ég þurfi ekki að tækla."

Orri er líka lítið í því að vera með kjaftbrúk í garð dómara.

„Ég er meira i því að benda þeim á hluti og grínast í þeim. Það eru margir sem að taka vel i það en sumum finnst ég ekkert fyndinn, það verður bara að hafa það."

Guðmundur Ársæll Guðmundsson dómari gaf Orra gula spjaldið í lok sigurleiks Vals gegn KR í gær.

„Það er hægt að réttlæta þetta spjald. Haukur Páll sem að vinnur 99% af öllum skallaboltum og auðveldar okkur miðvörðunum vinnuna alveg gífurlega ákvað að sleppa því að taka þennan skallabolta og það kom mér á óvart. Boltinn fór framhjá mér og Jeppe náði honum. Mér finnst samt sem áður að hann hefði getað sleppt þessu spjaldi því Jeppe var ekki kominn einn i gegn né i einhverju tækifæri á því að skora. Hann mat það greinilega öðruvísi og ég verð bara að taka þessu spjaldi."

Orri hefur aldrei fengið rautt spjald á ævi sinni.

„Eins og ég segi ég er skynsamur leikmaður og ef ég er eitthvað tæpur á því að fá spjöld þá lít ég inn á við og fer einfalt í hlutina. Það getur verið neikvætt og jákvætt. Stundum er betra að taka bara spjöldin á sig og keyra 100% inn í allt en ég gæti ekki gert liðinu það að skilja þá eftir einum manni færri inni á vellinum," segir þessi prúði leikmaður.
Athugasemdir
banner
banner