Cunha orðaður við þrjú félög - Garnacho til Chelsea? - Sjö á óskalistum Amorim - Hvað verður um Rashford? - Chelsea vill risaupphæð
   mán 29. ágúst 2016 16:21
Magnús Már Einarsson
Viðar skoðar aðstæður í Ísrael
Viðar Örn Kjartansson.
Viðar Örn Kjartansson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viðar Örn Kjartansson, framherji Malmö, er mættur til Ísrael til að skoða aðstæður hjá Maccabi Tel Aviv. Ólafur Garðarsson, umboðsmaður hans, staðfesti þetta í samtali við Fótbolta.net í dag en hann er með leikmanninum í Ísrael.

Malmö hefur samþykkt tilboð frá Maccabi Tel Aviv í Viðar en samkvæmt fréttum frá Svíþjóð hljóðar það upp á 3,5 milljónir evra.

Viðar skoðar nú aðstæður í Ísrael og möguleiki er á að hann gangi til liðs við Maccabi Tel Aviv áður en félagaskiptaglugginn lokar á miðvikudag.

Viðar er markahæstur í sænsku úrvalsdeildinni í dag með 14 mörk í 20 leikjum. Hann er í íslenska landsliðshópnum sem mætir Úkraínu í undankeppni HM á mánudaginn.

Maccabi Tel Aviv endaði í 2. sæti í úrvalsdeildinni í Ísrael á síðasta tímabili eftir að hafa unnið deildina þrjú ár í röð þar á undan. Liðið leikur í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í ár en Maccabi er með AZ Alkmaar, Zenit Pétursborg og FH-bönunum í Dundalk í riðli.

Á meðal leikmanna Maccabi Tel Aviv eru Yossi Benayoun, fyrrum leikmaður Liverpool og Chelsea, og varnarmaðurinn Tal Ben Haim en hann lék einnig lengi í úrvalsdeildinni.

Shota Arveladze, fyrrum landsliðsmaður Georgíu, er þjálfari Maccabi Tel Aviv en Jordi Cruyff, fyrrum leikmaður Manchester United, er yfirmaður íþróttamála þar.

Hinn 26 ára gamli Viðar kom til Malmö frá kínverska félaginu Jiangsu Sainty í byrjun árs en árið 2014 var hann markakóngur í Noregi með Valerenga.
Athugasemdir
banner
banner
banner