mán 29. september 2014 15:07
Magnús Már Einarsson
Áhorfendamet slegið ef rúmlega 6000 áhorfendur mæta
Kaplakrikavöllur.
Kaplakrikavöllur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH og Stjarnan mætast í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratititlinn í lokaumferð Pepsi-deildarinnar á laugardag. Mikill áhugi er fyrir leiknum og svo gæti farið að sett verði áhorfendamet í Pepsi-deildinni á laugardag.

Til þess að það gerist þurfa að mæta rúmlega 6000 áhorfendur á leikinn.

,,Það þarf verulega áhorfendaaukningu á Kaplakrikavellinum, til að slá út áhorfendamet á deildarleik á Íslandi, en flestir áhorfendur sem hafa komið á deildarleik voru 1961 á Laugardalsvellinum. 6.177 áhorfendur sáu leik KR - ÍA, 4:0," sagði blaðamaðurinn reyndi Sigmundur Ó. Steinarsson við Fótbolta.net í dag.

,,Flestir áhorfendur á deildarleik í Kaplakrika voru 4.238 áhorfendur, sem sáu leik FH og Vals 2007, 0:2, í næst síðustu umferð en þá voru liðin að berjast um Íslandsmeistaratitilinn."

,,Kaplakrikavöllurinn er sagður taka 6.000 áhorfendur, þar af 3.050 í sæti, í opinberum gögnum. Völlurinn verður því að vera smekkfullur og vel það - til að slá út áhorfendametið frá 1961."

,,Til gamans má geta að 5.716 áhorfendur mættu á gamla Melavöllinn 1952 til að sjá KR og ÍA í úrslitaleik um meistaratitilinn, sem KR-ingar unnu, 1:0. Þegar ÍA og KR léku hreinan úrslitaleik í lokaumferðinni á Akranesi 1996 komu 5.801 áhorfendi á leikinn, 4:1."


,,Þegar KR og ÍBV léku hreinan úrslitaleik 1998 í Frostaskjóli og KR-ingar byggðu upp áhorfendapalla á móti stúkunni, mættu 5.400 áhorfendur til leiks, 0:2."

Fleiri áhorfendur hafa þó mætt á sérstaka aukaleiki um Íslandsmeistaratitilinn.

,,Flestir áhorfendur sem hafa séð lokaleik - aukaúrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn, eru 8.790. Þeir komu til að sjá viðureign Keflavíkur (ÍBK) og ÍBV á Laugardalsvellinum 1971, 4:0. Eldra metið í aukaúrslitaleik var 8.534 áhorfendur sem sáu KR og ÍA á Laugardalsvellinum 1965, 2:1" sagði Sigmundur.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner