Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 29. september 2016 14:30
Arnar Daði Arnarsson
Best í 17. umferð: Hugsa að ég hafi sett upp smá skjöld
Best í 17. umferð - Mist Edvardsdóttir (Valur)
Mist Edvardsdóttir.
Mist Edvardsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
„Þetta var rólegri leikur en oft áður fyrir austan fjall. Leikir milli þessara liða hafa oft einkennst af mikilli hörku og fætingi en í þetta skiptið var áherslan kannski meiri á fótboltann og bæði lið að reyna ná upp góðu spili. Mér fannst okkur takast það nokkuð vel og sköpuðum slatta af góðum færum úr opnum leik þó svo mörkin hafi öll komið úr föstum leikatriðum," segir Mist Edvardsdóttir, leikmaður 17. umferðar í Pepsi-deild kvenna.

Mist skoraði tvö mörk og var öflug í liði Vals í 3-1 sigri á Selfossi síðastliðinn laugardag.

„Ég var fyrst og fremst ánægð með hvernig við nálguðumst leikinn og framkvæmdum það sem var talað um fyrirfram. Það er hætt við því að það komi smá deyfð yfir mannskapinn þegar lítið er eftir af mótinu og enginn séns á titli en við gerðum þetta faglega og verðskulduðum þennan sigur. Við höfum líka ekki riðið feitum hesti frá Selfossvelli síðustu misseri og ekki unnið þarna síðan 2013. Við höfum glutrað niður unnum leikjum svo ég var ánægð með hvernig við kláruðum seinni hálfleikinn eftir að hafa farið inn með 0-2 forystu í hálfleik," sagði Mist sem var ánægð með eigin frammistöðu í leiknum.

„Já, ég var sátt með minn leik. Eftir því sem leið á leikinn komst ég í betri tengingu við varnarlínuna í uppspilinu okkar og þá varð þægilegra að spila framhjá fyrstu pressu og tengja þannig við sóknina. Svo var líka alveg kominn tími á mark úr föstu leikatriði frá mér og það var gott að geta brotið ísinn í leiknum með því. "

„Fyrir leikinn á móti ÍA í þarseinustu umferð var ég smá farin að óttast að þetta yrði mögulega fyrsta tímabilið mitt á ferlinum þar sem mér tækist ekki að skora en síðan þá er ég komin með 3 mörk í tveimur leikjum svo ég þarf ekki að svitna meira yfir því," sagði Mist létt í bragði.

„Ég hló að Mána þegar hann sagði í Pepsi mörkunum að ég hefði sennilega ekki skorað tvö mörk í leik í Íslandsmóti síðan í 1. deildinni með Aftureldingu en þegar ég fór að hugsa það betur þá er það sennilega rétt hjá honum."

Þreyttari andlega eftir leiki í miðverði
Mist hefur undanfarin ár spilað í vörninni en í sumar hefur hún verið á miðjunni í liði Vals.

„Mér hefur alltaf þótt miðjan ótrúlega skemmtileg staða og er miðjumaður að upplagi þó svo ég hafi spilað miðvörð mestmegnis frá 2010. Í sumar hef ég hins vegar verið í ákveðnu akkerishlutverki þarna aftast á miðju og sinnt þessari hundavinnu fyrir framan hafsentana. Mér finnst mjög gaman að fá að vera meira í boltanum og í þessum contact og djöflagangi þarna á miðjunni. Maður er miklu þreyttari andlega eftir leiki í miðverði en að sama skapi skemmtilegt að stýra liðinu aftast og byrja uppspilið svo það eru kostir og gallar við báðar stöður."

Valur er í 3. sæti Pepsi-deildarinnar fyrir lokaumferðina. Hvað hefur vantað upp hjá liðinu í sumar til að blanda sér meira í titilbaráttuna?

„Aðallega hefur okkur vantað stöðugleika sem er eðlilegt fyrir lið sem er nánast glænýtt. Í sumar höfum við alla jafnan verið að byrja á 2-4 leikmönnum úr liðinu í fyrra svo við verðum að vera þolinmóðar og átta okkur á því að liðið þarf tíma til að læra að spila saman og koma aftur á þessari sigurhefð. Það tók okkur líka tíma að finna réttu blönduna, t.a.m. komum við á miðjunni allar frekar seint inn í þetta í vor, Laufey úr krossbandameiðslum og aðrar úr ómerkilegri hlutum."

Hefur nákvæmlega sama kraft og áður
Fyrir rúmlega tveimur árum greindist Mist með krabbamein. Hvernig það hefur breytt hugsun Mist varðandi fótboltann og hefur þetta breytt henni sem persónu í daglegu lífi?

„Meðferðin og allur pakkinn sem henni fylgdi hafði eflaust meiri áhrif á mig andlega heldur en ég gerði mér sjálf grein fyrir og ég er kannski fyrst núna að átta mig almennilega á því. Skellurinn við að hafa markmiðin og alla vinnuna sem maður var búinn að leggja á sig tekna svona frá sér á einni nóttu var frekar þungur og ég hugsa að ég hafi sett upp smá skjöld og reynt að sannfæra mig að fótboltinn væri ekki mitt „thing“ lengur því mér fannst of erfitt að koma til baka og finna að ég væri ekki eins."

„Það var búið að segja mér að það gæti tekið líkamann 6-12 mánuði að endurnýja sig en ég hlustaði lítið og ætlaði bara að verða söm strax svo ég strögglaði svolítið með þetta andlega í fyrra því ég vildi ekki halda áfram og vera bara eitthvað „has-been“. Tímabilið í sumar hefur hins vegar sýnt mér að ég hef nákvæmlega sama kraftinn og áður svo nú snýst þetta bara um að virkja hann til fulls. Sem persóna hef ég alltaf verið frekar gömul sál en ég þroskaðist og lærði mikið af þessu og ég held þetta hafi gert mig opnari gagnvart fólki í daglegu lífi."


Mist á 13 landsleiki að baki á ferli sínum. Gerir hún sér ekki vonir um að fara á EM í Hollandi næsta sumar?

„Það væri vissulega mjög skemmtilegt að taka þátt í því enda stórt verkefni. Ég einbeiti mér aðallega núna bara að því að halda áfram að njóta þess að spila fótbolta og þá er aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér," sagði Mist að lokum.

Verbúð 11 gefur verðlaun
Leikmaður umferðarinnar í Pepsi-deild kvenna fær 15 þúsund króna gjafabréf frá veitingastaðnum Verbúð 11 sem og kassa af Pepsi Max.

Sjá einnig:
Leikmaður 16. umferðar - Sigríður Lára Garðarsdóttir (ÍBV)
Leikmaður 15. umferðar - Anna Rakel Pétursdóttir (Þór/KA)
Leikmaður 14. umferðar - Svava Rós Guðmundsdóttir (Breiðablik)
Leikmaður 13. umferðar - Dóra María Lárusdóttir (Valur)
Leikmaður 12. umferðar - Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir (Stjarnan)
Leikmaður 11. umferðar - Berglind Björg Þorvaldsdóttir (Breiðablik)
Leikmaður 10. umferðar - Cloe Lacasse (ÍBV)
Leikmaður 9. umferðar - Sandra Sif Magnúsdóttir (Fylkir)
Leikmaður 8. umferðar - Arna Sif Ásgrímsdóttir (Valur)
Leikmaður 7. umferðar - Írunn Þorbjörg Aradóttir (Þór/KA)
Leikmaður 6. umferðar - Elín Metta Jensen (Valur)
Leikmaður 5. umferðar - Berglind Hrund Jónasdóttir (Stjarnan)
Leikmaður 4. umferðar - Hallbera Guðný Gísladóttir (Breiðablik)
Leikmaður 3. umferðar - Lauren Elizabeth Hughes (Selfoss)
Leikmaður 2. umferðar - Jeannette Williams (FH)
Leikmaður 1. umferðar - Harpa Þorsteinsdóttir (Stjarnan)
Athugasemdir
banner
banner
banner