Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   mið 29. október 2014 21:51
Brynjar Ingi Erluson
Enski deildabikarinn: Newcastle skellti Man City á Etihad
Moussa Sissoko fagnar marki sínu í kvöld
Moussa Sissoko fagnar marki sínu í kvöld
Mynd: Getty Images
Graziano Pelle skoraði tvö í kvöld
Graziano Pelle skoraði tvö í kvöld
Mynd: Getty Images
Þrír leikir fóru fram í enska deildabikarnum í kvöld en óvæntast var sigur Newcastle United á Manchester City á Etihad-leikvanginum.

Newcastle United lagði Manchester City með tveimur mörkum gegn engu í kvöld. Rolando Aarons kom gestunum yfir strax á 6. mínútu en þessi 18 ára leikmaður klobbaði þá Willy Caballero eftir góða skyndisókn.

Lið Alan Pardew virkaði afar öruggt í sínum aðgerðum í kvöld og skapaði mörg álitleg færi og þrátt fyrir nokkur fín færi heimamanna þá var staðan 0-1 í hálfleik. Newcastle gat að vísu bætt við öðru marki undir lok fyrri hálfleiks en Adam Armstrong brást bogalistin.

Gestirnir vildu fá vítaspyrnu á 68. mínútu er Gabriel Obertan var felldur af Aleksandr Kolarov en ekkert var dæmt. Kolarov slapp þar með skrekkinn en af upptökum að dæma hefði hann hæglega getað fengið rautt spjald og víti á sig fyrir vikið.

Moussa Sissoko kláraði svo dæmið fyrir Newcastle á 75. mínútu. Hann keyrði þá skemmtilega í gegnum vörn Man City áður en hann lét vaða á markið vinstra megin úr teignum.

Heimamenn fengu nokkur færi undir restina til þess að minnka muninn en á einhvern ævintýralegan hátt þá tókst það ekki. Lokatölur því 0-2 Newcastle í vil.

Tottenham Hotspur lagði þá Brighton að velli með tveimur mörkum gegn engu. Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik en í þeim síðari ákvað Erik Lamela að sýna listir sínar og kom heimamönnum yfir.

Harry Kane bætti við öðru þegar um það bil fimmtán mínútur voru eftir en tvíeykið hefur verið afar öflugt undanfarið. 2-0 sigur Tottenham staðreynd í kvöld.

Southampton lagði þá Stoke City að velli með þremur mörkum gegn tveimur. Ítalski framherjinn Graziano Pelle hélt áfram frábæru gengi sínu og skoraði tvö mörk fyrir gestina.

Hann kom þeim yfir á 6. mínútu áður en Shane Long bætti við öðru marki 25 mínútum síðar. Steven Nzonzi minnkaði muninn í byrjun síðari hálfleik áður en Mame Biram Diouf jafnaði metin þegar um það bil tíu mínútur voru eftir.

Pelle vildi þó ólmur koma Southampton áfram í keppninni og skoraði sigurmarkið sex mínútum síðar. Peter Crouch fékk þá að líta sitt annað gula spjald undir restina og þar með rautt en lokatölur í kvöld 2-3 Southampton í vil.

Úrslit og markaskorarar:

Manchester City 0 - 2 Newcastle
0-1 Rolando Aarons ('6 )
0-2 Moussa Sissoko ('76 )


Stoke City 2 - 3 Southampton
0-1 Graziano Pelle ('6 )
0-2 Shane Long ('30 )
1-2 Steven N'Zonzi ('49 )
2-2 Mame Diouf ('83 )
2-3 Graziano Pelle ('88 )


Rautt spjald:Peter Crouch, Stoke City ('88)
Tottenham 2 - 0 Brighton
1-0 Erik Lamela ('54 )
2-0 Harry Kane ('74 )
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner