„Að spila á Anfield var eitthvað sem maður gat ekki hugsað um fyrir nokkrum árum. Þetta var ótrúlega gaman og það var æðislegt að fá sigur í þokkabót," sagði Jón Daði Böðvarsson við Fótbolta.net í dag en hann var í liði Wolves sem sigraði Liverpool 2-1 í enska bikarnum á Anfield á laugardag.
„Þetta er eitt sterkasta lið í Evrópu í dag og það að sigra þá á Anfield er rosalegt afrek. Maður tekur eftir því að þetta er rosalega stór sigur fyrir félagið og stuðningsmennina. Þetta var jákvætt fyrir framhaldið á tímabilinu," sagði Jón Daði en Wolves er í 18. sætií Championship deildinni. Sigur liðsins á laugardag kom því verulega á óvart.
„Við erum með mjög sterkt lið en tímabilið hefur verið vonbrigði. Við erum alltof neðarlega miðað við gæði liðsins. Við fórum inn í leikinn sem litla liðið og vissum að öll pressan var á þeim. Við litum á þetta sem win-win. Við ætluðum að mæta dýrvitlausir og hafa gaman. Leikplanið gekk síðan mjög vel upp."
Bjóst við að vera í byrjunarliði
Manchester United var uppáhaldslið Jóns Daða í enska boltanum þegar hann ólst upp. „Þegar ég var lítill þá hélt ég með United en ég er ekki grjótharður stuðningsmaður. Ef eitthvað er þá er ég samt meira hrifinn af Liverpool þessa stundina en United, það er ekki oft sem United menn segja það."
Jón Daði kom inn á sem varamaður á 71. mínútu í leiknum á Anfield. „Ég bjóst við að ég myndi byrja og það voru mjög mikil vonbrigði að vera á bekknum. Maður vill spila meira en 15 mínútur í svona leik og eðlilega voru þetta mikil vonbrigði. Maður stjórnar þessu ekki og það eina sem maður getur gert er að koma inn af bekknum og gera sitt besta."
Fimm mínútur að jafna sig eftir sprettinn
Jón Daði átti góða innkomu og hjálpaði Wolves að vinna tíma þegar Liverpool sótti grimmt í leit að jöfnunarmarki. Í tvígang var Jón Daði einnig nálægt því að skora.
„Þeir minnkuðu muninn og þá var mikilvægt að spara sem mestan tíma fyrir liðið. Menn voru uppgefnir eftir að hafa hlaupið nánast allan leikinn og þá var mikilvægt að halda boltanum vel uppi. Það hefði verið sætt að skora á Anfield en það kemur bara næst."
Jón Daði átti magnaðan sprett upp hægri kantinn undir lok leiks þar sem hann stakk Lucas Leiva af. Jón Daði lék síðan inn á teig og átti skot sem Lucas bjargaði á línu.
„Það var 50/50 hvort ég ætti að fara út að hornfána og spara tíma eða hvort ég ætti að fara alla leið. Ég ákvað að fara alla leið og það munaði engu að ég hefði skorað. Það tók mig örugglega fimm mínútur að jafna mig eftir þennan sprett, ég var alveg búinn á því. Það hefði verið æðislegt að skora, sérstaklega eftir markaþurrð sem ég hef verið í. Það hefði verið flott að ná marki og komast á ról aftur."
Sjálfstraustið ekki minnkað í markaþurrð
Rúmar 1400 mínútur eru frá síðasta marki Jóns Daða en hann segir að markaþurrðin sé ekki farin að taka of mikið á sálina.
„Það kemur á óvart hversu lítið það hefur tekið á mann. Þegar framherjar ganga í gegnum markaþurrð þá er hætta á að sjálfstraustið minnki en það hefur ekki verið þannig hjá mér. Ég veit hvað ég get. Að skora mörk er ákveðinn partur af leik framherjans en það er líka mikilvægt að horfa á frammistöðuna í heild hjá manni. Ef maður er að standa sig vel þá er það jákvætt."
„Eðlilega er þetta alltaf bakvið eyrað á mér að vera ekki að skora nóg. Það er pirrandi því ef ég væri að skora fleiri mörk þá væri ég kannski á aðeins hærri stall. Þetta er eitthvað sem ég er alltaf að vinna í og ég held að þetta smelli fyrr en síðar."
Stjórnar víkingaklappinu eftir alla sigurleiki
Eftir leikinn tóku leikmenn Wolves víkingaklappið ásamt stuðningsmönnum sínum sem voru mættir á Anfield.
„Þetta hefur verið hefð eftir sigurleiki frá því að ég spilaði minn fyrsta leik. Þetta er stemmari og það er gaman að tengjast stuðningsmönnunum. Þetta er bara skemmtilegt," sagði Jón Daði en hann fær það hlutverk alltaf að stjórna klappinu.
„Paul Lambert (stjóri Wolves) ýtir mér fremst og ég fer í það á fullu að taka klappið. Síðan eru hinir með manni. Stuðningsmennirnir dýrka þetta og þeim finnst þetta ótrúlega skemmtilegt. Þetta er skemmtileg tenging milli leikmanna og stuðningsmanna eins og í landsliðinu."
Dregið verður í enska bikarnum í kvöld og Jón Daði vill fá annað stórlið í næstu umferð.
„Ég væri til í að mæta einhverjum af þessum stóru hákörlum, einhverju liði í úrvalsdeildinni. Maður vill alltaf spila við þá bestu og fá stórt lið. Það væri gaman að fá United eða eitthvað," sagði Jón Daði en Úlfarnir hræðast ekki neitt eftir úrslit helgarinnar.
„Sjálfstraustið í liðinu er mjög hátt. Eftir þennan leik sáum við að við eigum séns í hvaða lið sem er. Það verður spennandi að sjá hverja við fáum," sagði Jón Daði.
Athugasemdir