Haaland, Toney, Gomes, Diomande, Gyokeres, Southgate, O'Neil, De Zerbi og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mán 30. mars 2015 09:00
Elvar Geir Magnússon
skrifar frá Frankfurt
„Fullkomin niðurstaða fyrir okkar herbergi"
Icelandair
Hannes um leikformið: „Ég hafði aldrei áhyggjur
Hannes um leikformið: „Ég hafði aldrei áhyggjur"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Varnarlínan lætur mig líta vel út leik eftir leik
„Varnarlínan lætur mig líta vel út leik eftir leik"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Gummi er svakalega sterkur markmanns sálfræðingur
„Gummi er svakalega sterkur markmanns sálfræðingur"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þú mátt ekki vera í of miklum þægindaramma
„Þú mátt ekki vera í of miklum þægindaramma"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hannes Þór Halldórsson, markvörður Íslands, hafði engar áhyggjur af því að vera ekki í nægilega góðu leikformi fyrir leikinn gegn Kasakstan. Hannes spjallaði við undirritaðan á flugvellinum í Astana í gær.

Hannes leikur með Sandnes Ulf í Noregi en deildin þar í landi er ekki farin af stað.

„Ég hafði aldrei neinar áhyggjur. Í fyrsta lagi var ég tvívegis búinn að takast á við svona óvenjulegar aðstæður. Það var gegn Slóveníu sem var á miðju undirbúningstímabili á Íslandi og svo í umspilinu gegn Króatíu þar sem mótið kláraðist einum og hálfum mánuði fyrir leikina þar sem ég þurfti að halda mér í formi. Ég er vanur þessu," segir Hannes.

„Svo er undirbúningstímabilið að ná hámarki núna í Noregi. Það miðast allt við að ná hápunkti á þessum tíma því mótið er að fara í gang. Ég hef alltaf verið sterkur í upphafi móta og er í flottu formi svo ég hafði engar áhyggjur."

Margt sem þurfti að varast
Hannes hefur aðeins fengið á sig tvö mörk í fimm leikjum í undankeppni EM og hélt markinu hreinu í fjórða sinn í Kasakstan. Ísland fagnaði 3-0 sigri eins og allir vita en Eiður Smári Guðjohnsen braut ísinn. Hannes og Eiður eru herbergisfélagar í landsliðinu.

„Þetta hefði ekki getað endað betur fyrir okkar herbergi. Hann með mark og ég með hreint búr í sigri. Það er eins gott og það gerist," segir Hannes en þetta var frábær helgi fyrir íslenska liðið og önnur úrslit hagstæð. Breiðhyltingurinn segir leikinn í Kasakstan hafa verið mjög skemmtilega reynslu,

„Það var léttir að klára þennan leik með þessum hætti. Þetta er leikur sem maður var búinn að vera að horfa til í einhverja fimm mánuði og búin að byggjast upp pressa eftir að við töpuðum fyrir Tékkunum."

„Það var langt síðan síðasti leikur var, ferðalagið langt og andstæðingurinn erfiður. það var margt við þennan leik sem þurfti að varast. Það er virkilega sterkt fyrir okkur að komast úr þessum leik með þrjú mörk skoruð og engin fengin á okkur. Það var gríðarlega mikill léttir og gleði að klára þetta svona sterkt."

Varnarlínan lætur mig líta vel út
Kári Árnason og Ragnar Sigurðsson hafa verið mjög öflugir í hjarta varnarinnar í þessari undankeppni.

„Þeir eru frábærir varnarmenn báðir tveir. Þeir eru að spila af miklum stöðugleika mjög vel með landsliðinu. Þeir eru að halda sínu leveli og eru frábærir leik eftir leik. Það er æðislegt að spila fyrir aftan þá," segir Hannes.

„Varnarlínan lætur mig líta vel út leik eftir leik. Ég er búinn að halda hreinu í fjórum af fimm leikjum. Þeir hleypa andstæðingunum mjög sjaldan að markinu. Þeir eru að vinna frábæra vinnu og allt liðið sem heild er rosalega þéttur pakki. Sjálfstraustið í liðinu er mikið þegar við förum inn í leiki. Þetta er ekki tilviljanakennt."

„Það er í mínum höndum að gera hlutina rétt þegar eitthvað sleppur í gegn. Mér finnst það hafa gengið ágætlega í þessari keppni. Sjálfstraustið er mikið og formið gott," segir Hannes og hrósar Guðmundi Hreiðarssyni markmannsþjálfara fyrir hans starf með markverði Íslands.

„Ég kann Gumma þakkir fyrir það. Hann er svakalega sterkur markmanns sálfræðingur myndi ég segja. Hann er góður í að fá mann til að trúa því að maður sé besti markvörður í heimi. Virkilega gott að hafa hann sem félaga utan vallar og gott að tala við hann, bæði í velgengni og mótbyr. Hann hefur reynst mér mjög vel."

Finnst ég þurfa að leggja enn harðar að mér
Þrátt fyrir hetjulega frammistöðu Hannesar í norsku úrvalsdeildinni í fyrra tókst honum ekki að koma í veg fyrir fall Sandnes Ulf. Framundan er því tímabil í norsku B-deildinni og hefur Hannes verið gerður að fyrirliða liðsins.

„Það voru mikil vonbrigði að fara niður með liðinu og svo gaf ég það út að ef ég hefði möguleika á þá myndi ég skoða það að spila í sterkari deild. Það varð ekkert úr því og þá er bara að gera eins vel og hægt er úr stöðunni. Það besta sem ég get gert er að tryggja að Sandnes spili í efstu deild á næsta ári. Það er öruggasti möguleikinn minn á að spila í efstu deild á næsta ári. Að vera orðinn fyrirliði eykur ábyrgðina og gefur mér enn meira í þessari stöðu," segir Hannes.

Er ekkert erfitt að þurfa að gíra sig upp í það að vera að fara í B-deildina?

„Það er snúið. Maður er meðvitaður um þetta og framan af undirbúningstímabili þurfti maður að minna sig á að halda hausnum á réttum stað. Þú þarft stress og adrenalín í fótbolta, þú mátt ekki vera í of miklum þægindaramma. Það eru þessi 5% sem skila þér þessari X-faktor frammistöðu. Þegar maður er búinn að sjá það að maður á heima í efstu deild og vel það er snúið að koma hausnum í lag," segir Hannes.

„En það er svo mikið sem ég hef til að „mótivera" mig. Ég er náttúrulega með landsliðinu og finnst ég þurfa að leggja enn harðar á mig verandi í B-deildinni til að sýna það að ég er þess verðugur að standa í marki íslenska landsliðsins. Ef ég ætla að reyna að komast aftur þar sem ég vil vera þarf ég að leggja enn harðar á mig. Það er góð stemning í félaginu og hugur í öllum að komast aftur upp. Það hefur gert það að verkum að ég er kominn með réttu tilfinninguna sem þú þarft að hafa. Ég hlakka mikið til að byrja með."

„Við erum að fara í harða baráttu. Fólk er að reikna með okkur í toppbaráttu. Það voru náttúrulega þrjú lið sem féllu í fyrra. Þar á meðal Brann sem er eitt sterkasta liðið í Noregi. Það reikna allir með því að þeir fari upp. Svo er Sogndal svona lið se mfer upp og niður milli deilda og ættu að vera í toppbaráttunni. Það er erfið samkeppni um tvö efstu sætin og svo fara lið 3-6 í erfitt umspil um að fá leiki gegn liði í efstu deild um sæti," segir Hannes sem telur liðið eiga fína möguleika á að ná markmiði sínu með að komast upp.

„Við höfum ekki misst mikið úr kjarnanum og þjálfarinn að gera fínustu hluti. Það er fínasta bjartsýni í hópnum."
Athugasemdir
banner
banner
banner