Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 30. mars 2015 21:30
Ívan Guðjón Baldursson
Heimild: FH.is 
Kristján Flóki: Kominn tími til að FH vinni tvennuna
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristján Flóki Finnbogason er búinn að skrifa undir þriggja ára samning við FH eftir að hafa hætt við að ganga til liðs við Breiðablik á síðustu stundu.

Kristján Flóki er gríðarlega eftirsóttur enda á leið heim úr atvinnumennsku þar sem hann hefur verið hjá FC Kaupmannahöfn síðustu tvö ár.

FH.is heyrði í Kristjáni Flóka og tók stutt viðtal við framherjann efnilega sem spilaði sinn fyrsta U21 landsleik gegn Rúmeníu á fimmtudaginn.

„Það er frábært að vera kominn heim aftur og ennþá betra að vera kominn heim í uppeldisfélagið,” sagði Kristján Flóki við FH.is.

„Það sem heillaði mig mest er að þetta er auðvitað uppeldisklúbburinn. Liðið stefnir alltaf á það að vinna allt það sem í boði er og fara eins langt og hægt er í Evrópukeppni. Hérna í Kaplakrika er sú aðstæða og þjálfun sem er best að mínu mati."

Kristján hefur leikið fyrir U17, U18, U19 og U21 árs landslið Íslands og á tvo leiki á Íslandsmóti að baki fyrir FH, frá því fyrir tveimur og þremur árum. Kristján segist vera búinn að bæta leik sinn síðan þá og hlakkar til að hefja nýtt tímabil.

„Mér fannst ég bæta mig sem leikmaður úti, en ég þroskaðist einnig mikið. Mér fannst ég þroskast sem leikmaður á flestum sviðum fótboltans. Þjálfunin var góð úti og ég spilaði marga leiki gegn frábærum liðum.

„Mér finnst kominn tími til þess að FH vinni tvennuna og ætla ég að gera allt sem í valdi mínu stendur til að hjálpa til við það, en ég mun aldrei gleyma því 2004 þegar við unnum fyrsta titilinn. Velgengnin hefur verið mikil síðan og við ætlum að halda henni gangandi áfram.”

„FH hefur alltaf átt frábæra stuðningsmenn og vonandi verða þessir dyggu stuðningsmenn duglegir að mæta á völlinn í sumar og hvetja okkur til dáða. Áfram FH!"

Athugasemdir
banner
banner
banner