Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   lau 30. apríl 2016 10:40
Elvar Geir Magnússon
Nóg af slúðri um Chelsea
Powerade
Óánægður hjá Chelsea.
Óánægður hjá Chelsea.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
 Mahrez er ekki hrifinn af skoska veðrinu.
Mahrez er ekki hrifinn af skoska veðrinu.
Mynd: Getty Images
Góðan og gleðilegan laugardag. Er þetta helgin þar sem Leicester tryggir Englandsmeistaratitilinn? Það kemur í ljós. Hér er allavega slúðrið!

Corinthians í Brasilíu reiknar með því að Chelsea nýti möguleika sinn á að kaupa brasilíska framherjann Alexandre Pato (26) eftir tímabilið. Antonio Conte, verðandi stjóri Chelsea, ku hafa mikið álit á leikmanninum. (Sky Sports)

Leonardo Bonucci (28), varnarmaður Juventus, hafnar vangaveltum um að Conte vilji fá hann til að koma í staðinn fyrir John Terry (35) hjá Chelsea. (Quotidiano Sportivo)

Conte mun leyfa belgíska landsliðsmarkverðinum Thibaut Courtois (23) að yfirgefa Chelsea í sumar. Courtois er ósáttur í London og samband hans og markmannsþjálfara félagsins slæmt. Fraser Forster er á óskalista Conte. (Daily Mirror)

Chelsea íhugar að gera 24 milljóna punda tilboð í miðjumanninn Riechedly Bazoer (19) hjá Ajax. (ELF Voetbal Magazine)

Guus Hiddink, bráðabirgðastjóri Chelsea, segir að Willian (27) sé lykilmaður á Stamford Brige og að það yrði mistök ef félagið myndi ákveða að selja brasilíska leikmanninn til Guangzhou Evergrande í Kína. (Daily Mirror)

Miðjumaðurinn Sandro (27) sem er hjá West Brom á lánssamningi frá QPR vill ganga alfarið í raðir félagsins. (Daily Mail)

Manuel Pellegrini, stjóri Manchester City, segir að það sé ótrúlegt að enska úrvalsdeildin hafi hafnað beiðni um að færa leikinn gegn Southampton, sem er á morgun, fram um einn dag. City vill meiri tíma til að undirbúa seinni leikinn gegn Real Madrid í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. (Manchester Evening News)

Manchester City undirbýr tilboð í sumar í varnarmanninn Reece Oxford (17) hjá West Ham. (Daily Mail)

Riyad Mahrez (25), vængmaður Leicester og leikmaður ársins í ensku deildinni, segist hafa verið nálægt því að ganga í raðir St Mirren á sínum tíma. Hann hætti við vegna veðurfarsins í Skotlandi. (Daily Mail)

Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, segist hafa skilið Jon Flanagan eftir utan hóps að undanförnu því hann vill að þessi 23 ára strákur vinni betur í líkamlega þættinum. (Liverpool Echo)

Manchester United hefur gert tilboð í Gabriel Jesus (18), framherja Palmeiras í Brasilíu, sem hefur verið líkt við Neymar. (O Estado de Sao Paulo)

United og Tottenha hafa bæði mikinn áhuga á framherjanum Pedro Ruiz (16) sem er hjá Real Madrid. (Independent)

Rafael Benítez, stjóri Newcastle, segir að slæm byrjun liðs síns hafi verið eins og að fá kjaftshögg frá Mike Tyson. (Chronicle live)

Benítez hefur beðið stuðningsmenn um að einbeita sér að því að styðja sitt lið gegn Crystal Palace í dag í stað þess að kasta fúkyrðum í Alan Pardew, fyrrum stjóra Newcastle, sem nú stýrir Crystal Palace. (Daily Express)

Louis van Gaal, stjóri Manchester United, segir að það sé auðveldara fyrir lítil félög eins og Leicester City að kaupa leikmenn. (Independent)

Claudio Ranieri segir að markvörðurinn Kasper Schmeichel (29) ætti ekki að vera borinn saman við föður sinn Peter Schmeichel sem vann ensku úrvalsdeildina fimm sinnum. Hann sagði einnig í gríni að hann myndi skipta á Kasper og Lionel Messi. (Daily Mirror)

Louis van Gaal, stjóri Manchester United, sagði á fréttamannafundi að leikmenn sínir séu ekki vanir því að vinna deildartitla. Hann virðist hafa gleymt því að David de Gea, Chris Smalling, Phil Jones, Ashley Young og Antonio Valencia hafa allir orðið Englandsmeistarar. (Manchester Evening News)
Athugasemdir
banner