Liverpool opið fyrir tilboðum í Nunez - AC Milan vill fá Rashford - Ferguson á blaði hjá West Ham
   mán 30. apríl 2018 17:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Bestur í 1. umferð: Að ætla sér hluti frekar en að vilja þá
Sveinn Aron Guðjohnsen (Breiðablik)
Sveinn Aron Guðjohnsen byrjar sitt tímabil vel. Tvö mörk í fyrsta leik.
Sveinn Aron Guðjohnsen byrjar sitt tímabil vel. Tvö mörk í fyrsta leik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fotbolti.net - Anna Þonn
Sveinn Aron Guðjohnsen er leikmaður 1. umferðar Pepsi-deildar karla hjá Fótbolta.net. Sveinn Aron skoraði tvö mörk fyrir Blika gegn ÍBV á Kópavogsvelli á laugardag og var fantagóður í leiknum.

„Það var gott að byrja svona vel og fá sjálfstraust fyrir næstkomandi leiki," segir Sveinn Aron í samtali við Fótbolta.net

Sveinn Aron hefur skorað 10 deildarmörk á ferlinum og þau hafa nánast öll komið gegn liðum á landsbyggðinni, þar af hafa fjögur komið gegn ÍBV. Sveinn segist ekkert hafa á móti landsbyggðinni.

„Ég reyni auðvitað að skora í hverjum einasta leik og gera mitt besta fyrir liðið," segir Sveinn léttur.

Hinn 19 ára gamli Sveinn byrjar þetta tímabil vel. Hefur hann verið að gera eitthvað sérstakt í vetur til þess að gera betur núna en í fyrra?

„Er þetta ekki alltaf það sama? Passa mataræðið og koma sér stand, og ætla sér hluti frekar en að vilja þá. Það er þannig."

Jákvæður blær með Gústa
Ágúst Gylfason tók við Blikum fyrir tímabilið. Hann segir stefnuna vera að enda í efstu þremur sætunum. Sveinn Aron segir að það sé klárlega raunhæft markmið.

„Við erum með frábært lið, góða leikmenn í öllum stöðum. Við erum líka með leikmenn sem geta komið inn af bekknum og breytt leikjum. Mér finnst það mjög raunhæft."

„Mér finnst Gústi frábær. Það hefur kannski verið frekar þungt yfir Breiðabliksmönnum síðustu árin. Það er allt annað að fá Gústa og það eru allir ánægðir í klefanum."

„Ég hef ekki enn sett mér persónuleg markmið fyrir sumarið. Ég vil bara gera mitt besta í hverjum einasta leik og sjá hversu langt það fleytir mér. Ég pældi ekki í því fyrir fyrir sumarið að senda mér persónuleg markmið fyrir sumarið."

„Ég er sonur hans, ég þekki ekkert annað"
Eins og allir eflaust vita er Sveinn Aron sonur Eiðs Smára Guðjohnsen, fyrrum landsliðsfyrirliða sem spilaði með Chelsea og Barcelona á ferli sínum. Þegar Sveinn Aron stendur sig vel á knattspyrnuvellinum þá beinist umræðan oft að því að hann sé "sonur Eiðs Smára", en ekki bara "Sveinn Aron".

Aðspurður segist Sveinn Aron þetta ekki fara í taugarnar á sér persónulega, meira fólkinu í kringum sig.

„Það fer ekki í taugarnar mér, aðallega lætur fólkið í kringum mig þetta fara í taugarnar á sér."

„Mér er alveg sama. Ég er sonur hans, ég þekki ekkert annað."

„Það að vera sonur hans setur enga auka pressu á mig. Ég þekki ekkert annað en að vera sonur hans."

Domino's gefur verðlaun
Leikmenn umferðarinnar í Pepsi-deild karla og kvenna fá Pizzu veislur frá Domino's í sumar.
Athugasemdir
banner
banner
banner