þri 30. júní 2015 15:15
Arnar Daði Arnarsson
Norðmaður á reynslu hjá Stjörnunni
Stjarnan er með Norðmann á reynslu.
Stjarnan er með Norðmann á reynslu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjarnan hefur fengið norska leikmanninn, Erik Tönne til sín á reynslu. Þetta staðfesti Rúnar Páll þjálfari Stjörnunnar í samtali við Fótbolta.net.

Tönne er 24 ára gamall en hann hefur leikið með Sandnes Ulf undanfarin tvö ár í norsku úrvals- og 1. deildinni.

Leikmaðurinn getur spilað bæði sem vinstri bakvörður og á vinstri kantinum. Rúnar Páll segir að Stjörnumenn hafi fengið góð meðmæli en vilji skoða leikmanninn áður en málið fari lengra.

Erik Tönne er samningslaus hjá Sandnes Ulf og því geta Stjörnumenn fengið hann frítt. Rúnar segir að Stjörnumenn séu að leita af styrkingu og séu opnir fyrir ýmsum möguleikum.

Erik Tönne lék tímabilið 2010/2011 með Sheffield United í ensku Championship deildinni, auk þess hefur hann leikið með York City og Ham/Kam en hann kemur úr unglingaakademíu Rosenborgar.

Tönne lék með landsliðsmarkverðinum Hannes Þór Halldórssyni hjá Sandnes en Hannes gaf meðmæli sín til Stjörnunnar.

Aron Heiðdal fer í glugganum
Við greindum frá því fyrir hádegi í dag að Aron Heiðdal hafi óskað eftir því að fá að fara frá Stjörnunni þegar félagaskiptaglugginn opni. Rúnar Páll segir að Stjörnumenn séu opnir því að leyfa Aroni að fara, þó ekki nema á láni.

Aron Heiðdal hefur hinsvegar óskað eftir því að yfirgefa félagið alfarið.



Athugasemdir
banner
banner
banner