Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   fim 30. júní 2016 08:30
Elvar Geir Magnússon
Annecy
Tíu álitsgjafar velja þrjá bestu menn Íslands
Icelandair
Ragnar Sigurðsson hefur átt magnað mót.
Ragnar Sigurðsson hefur átt magnað mót.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gunnlaugur Jónsson er í hópi álitsgjafa okkar.
Gunnlaugur Jónsson er í hópi álitsgjafa okkar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hannes Þór hefur varið mark Íslands vel.
Hannes Þór hefur varið mark Íslands vel.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Björn Berg Gunnarsson.
Björn Berg Gunnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sindri Sverrisson blaðamaður.
Sindri Sverrisson blaðamaður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net fékk álitsgjafa til að svara þremur spurningum varðandi Ísland og EM. Hér birtum við svör þeirra við fyrstu spurningunni: Topp þrír - Hvaða þrír leikmenn hafa verið bestu leikmenn Íslands á EM?

Logi Bergmann Eiðsson, fjölmiðlamaður
Það er mjög erfitt að velja menn vegna þess að styrkur liðsins er fyrst og fremst liðsheild. Ég verð þó að nefna Ragnar, sem var til dæmis stórkostlegur á móti Englendingum, eins og reyndar Kári og öll vörnin. Hannes er búinn að vera ótrúlega öruggur. Birkir er meiriháttar. Aron, Gylfi, Kolbeinn... Ég ætla að hætta áður en ég nefni þá alla.

Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmaður í handbolta:
Mér dettur ekki í hug að velja þrjá bestu því að þeir hafa verið sturlaðir allir sem einn! Langar hinsvegar að henda í annan topp 3 lista en hann samastendur af strákunum, staffinu og stuðningsmönnunum! Langar reyndar að henda fjölmiðlum líka inn og setja þetta upp sem topp 4 lista (í engri sérstakri röð) en fjölmiðlar hafa einnig væri geggjaðir og lagt hjarta og sál í þetta til þessa bæði að gera ævintýrinu góð skil og dreifa jákvæðri orku og stemmingu sem skilar sér inn á völlinn til strákanna.

Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA:
Það hefur verið geggjað að fylgjast með þessu stórkostlega liði á þessu móti og því er afar erfitt að taka þrjá leikmenn útúr. Maður hafði vissulega miklar væntingar til liðsins en ég verð að viðurkenna að maður hafði áhyggjur af nokkrum lykilmönnum vegna meiðsla og skort á leikæfingu fyrir þetta stóra mót.

En fyrst þarf að velja þrjá þá hefur Ragnar Sigurðsson verið stórkostlegur í þessu móti, hann toppaði sjálfan sig í Englands leiknum þar sem hann var í heimsklassa. Sem gamall miðvörður hefur verið unun að fylgjast með báðum miðvörðum liðsins en Raggi er eiga stórkostlegt mót og ég skal hundur heita ef frammistaða hans kemur honum ekki til Englands eins og hann hefur stefnt að allt sitt líf.

Gylfi Sigurðsson hefur líka verið magnaður og eins og Raggi þá toppaði hann í Englands leiknum, varnarvinnan hans þar var master class - eins við vissum þá gerist alltaf eitthvað þegar hann hefur boltann - þvílíkur leikmaður. Hlaupageta þessa leikmanns er nátturulega frábær og hann virðist bara vaxa eftir því sem sviðið stækkar í þessu móti (reyndar eins og allt liðið) Það verður fróðlegt að sjá hvort eitthvað breytist hjá honum með félagsliði sínu þegar fótboltaheimurinn sér hversu góður 'box to box' miðjumaður hann er orðinn eða hvort stærra lið kaupir hann. Eina sem maður vonar er að hann verði í aðalhlutverki hjá liði sínu í þessari stöðu hvort hann sem hann verður áfram hjá Swansea eða hjá stærra liði.

Ég verð svo að velja Hannes markmann - þegar maður lítur á þá brötta brekku sem hann þrufti að klífa í vetur þá verð ég að viðurkenna að maður hafði miklar áhyggjur af kappanum í þessu móti. Hann hefur staðið vaktina stórkostlega, vissulega gat hann gert betur þegar England fékk vítið en eftir á að hyggja var þetta kannski besta leiðin fyrir liðið, fá mark á sig - vakna og setja svo jöfnunarmark í smettið á þeim. Frá og með Austurríkis leiknum kom klárlega annað gameplan þar sem hann hefur verið að finna öftustu menn í fætur - stundum hefur það staðið tæpt en við höfum sloppið hingað til. En maður lifandi hvað gæinn er klár í þetta verkefni og það er unun að fylgjast með ferli hans sem á klárlega heima í heimildarmynd - vonandi leikstýrir hann sjálfur þeirri mynd.

Auðvitað er hægt að týna fleiri leikmenn til - Birkir er þá klárlega sá sem bankar helst á dyrnar en það gera líka hinir sj úr byrjunarliðinu sem ég hef ekki nefnt hér.

Davíð Snorri Jónasson, þjálfari hjá Stjörnunni:
Birkir Bjarnason: Hefur að mínu mati verið frábær og sýnt hversu klár leikmaður hann er. Leyst mismunandi hlutverk í taktík og skilað sínu varnarlega og sóknarlega. Engar flugeldasýningar, bara gæði.

Hannes Halldórsson: Yfirvegaður og smitar vörnina fyrir framan sig. Klárar sitt og tekur extra ofan á. Að spila svona eftir óvissu í undirbúning mótsins er frábært. Sýnir hveru mikill karakter, fyrirmynd og íþróttamaður Hannes er.

Ragnar Sigurðsson: Frammistaðan gegn Englandi mögnuð og á ég erfitt með að komast yfir hana. Hungur hans eins og alls liðsins er einstakt. Hann stendur við yfirlýsingarnar og við sjáum íslensku gildin skína. Vonandi nær hann sínum markmiðum eftir mót þessi hermaður.

Björn Berg Gunnarsson, sparkspekingur og starfsmaður Íslandsbanka:
Ragnar Sigurðsson: Ísland hefur þurft að verjast nær óslitið allt mótið og Ragnar gerir ekki mistök. Hann er í gríðarlega góðu formi og sýndi gegn Englendingum bestu frammistöðu íslensks varnarmanns í landsleik.

Kári Árnason: Flikkar þessum tveimur sköllum áfram til Ragnars og Jóns Daða og pakkar hverjum sóknarmanninum á fætur öðrum saman. Draumur fyrir menn að hafa svona félaga í vörninni.

Gylfi Sigurðsson: Situr enn á afsalinu af Wayne Rooney og var besti maður vallarins, með Ragnari. Hann hefur sýnt á mótinu að hann er ekki bara einn af hættulegustu miðjumönnum ensku úrvalsdeildarinnar sóknarlega, heldur getur varist og djöflast eins og þeir bestu. Verðmiðinn hefur rokið upp og Swansea gætu átt erfitt með að halda honum.

Þórður Helgi Þórðarson, Doddi litli á Rás 2:
Raggi, Kári, Aron/Gylfi.

Stefán Árni Pálsson, fréttamaður á Vísi:
Ragnar Sigurðsson er búinn að vera besti leikmaður okkar á mótinu. Birkir Bjarnason hefur einnig verið stórkostlegur. Svo vil ég hafa Gylfa Sigurðsson þarna þar sem hann hefur sýnt ótrúlega takta á vellinum, þá sérstaklega varnarlega og er hann að sýna glænýja hlið af sér hér í Frakklandi.

Sindri Sverrisson, blaðamaður á Morgunblaðinu:
Það er fáránlega erfitt að velja einstaka leikmenn úr þessu liði en Ragnar Sigurðsson er fyrstur á blað hjá mér. Hann hefur verið hreint ótrúlegur. Set líka Gylfa Þór Sigurðsson og Kára Árnason á listann.

Magnús Halldórsson, blaðamaður á Kjarnanum:
Það er erfitt að velja þrjá, þegar liðið hefur náð svo frábærum árangri. Ég treysti mér varla til þess. Liðsheildin er aðalsmerki Íslands. En eins og leikirnir hafa spilast, þá finnst mér Ragnar Sigurðsson, Gylfi Sigurðsson og Kolbeinn Sigþórsson hafa verið mikilvægir hlekkir. Birkir Bjarnason og Aron koma líka upp í hugann, eins og ég segi; það er erfitt að nefna þrjá.

Ingólfur Sigurðsson, leikmaður Fram:
Þessi spurning er eiginlega ósanngjörn í ljósi þess hversu vel hefur gengið! Það snýst allt um liðsframmistöðu hjá Íslandi en ekki einstaklinga sem eiga að bera liðið á herðum sér. Ég vil því tilnefna þrjá leikmenn sem ég hef heillast að án þess að fullyrða að um sé að ræða bestu leikmenn liðsins á mótinu.

Birkir Bjarnason. Ég sá hann í návígi í Marseille gegn Ungverjalandi. Mér fannst aðdáunarvert hversu vel hann spilar varnarleikinn. Hann klikkar aldrei á færslunum.
Gylfi Sigurðsson. Hann gerir svo ótrúlega mikið fyrir liðið þegar það er með boltann. Klikkar varla á sendingu og er frábær í að koma boltanum hratt upp völlinn.
Ragnar Sigurðsson. Orð eru óþörf eftir frammistöðu hans gegn Englandi.
Athugasemdir
banner
banner
banner