Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fim 30. júní 2016 07:30
Gunnar Gunnarsson
Sagan: Ísland hefur spilað virkilega flotta leiki gegn Frakklandi
aldrei unnið Frakka, tapað átta sinnum og gert þrjú jafntefli
Icelandair
Íslensku strákarnir fagna marki Birkis Bjarnasonar.
Íslensku strákarnir fagna marki Birkis Bjarnasonar.
Mynd: Getty Images
Hetjurnar á Stade de France árið 1999.
Hetjurnar á Stade de France árið 1999.
Mynd: Getty Images
Gullskalli Ríkharðar Daðasonar gegn ríkjandi heimsmeisturum Frakka.
Gullskalli Ríkharðar Daðasonar gegn ríkjandi heimsmeisturum Frakka.
Mynd: Morgunblaðið
Ísland mætir Frakklandi í 8 liða úrslitum á EM 2016 næstkomandi sunnudagskvöld og hefst viðureignin klukkan 19:00 í íslenska tímabeltinu. Eftir magnaða frammistöðu strákanna okkar gegn Englendingum í 16 liða úrslitum spila þeir við gestgjafana á Stade de France. Það má búast við allt að 99% áhorfi á þennan leik hér heima og ekki ósennilegt að um 6000 íslenskir stuðningsmenn verði staddir í París, höfuðborg Frakka til að hvetja liðið áfram.

Fyrstu landsleikir okkar við Frakka voru leiknir árið 1957 og voru liður í undankeppni fyrir HM í Svíþjóð '58. Fyrri leikurinn á útivelli tapaðist 8-0 en sá seinni 1-5 á Laugardalsvelli. Þórður Þórðarson skoraði okkar mark. Síðan þá hafa leikar jafnast töluvert og strákarnir okkar voru býsna nálægt því að landa sínum fyrsta sigri gegn þeim frönsku fyrir fjórum árum.

Íslensku víkingarnir hafa nefnilega staðið sig virkilega vel í síðustu leikjum gegn Frökkum þó aldrei hafi þeim tekist að landa sigri. Lars Lagerbeck tók við íslenska liðinu árið 2012 og í hans þriðja leik mættum við einmitt Frökkum á þeirra heimavelli en þessi viðureign var liður í undirbúningi Frakka fyrir lokamót EM sem haldið var í Póllandi og Úkraníu.

Útlitið var virkilega bjart eftir fyrri hálfleik en Birkir og Kolli höfðu komið okkur í 0-2. Seinni hálfleikur reyndist hins vegar þungur róður. Laurent Blanc þáverandi þjálfari þeirra frönsku ákvað senda sína skærustu stjörnu til bjargar og Franck Ribery reyndist okkar mönnum erfiður. Frakkar sneru leiknum sér í vil og varnarmaðurinn, Adil Rami skoraði sigurmarkið þremur mínútum fyrir leikslok. Sá ágæti piltur sem leikur með Sevilla á Spáni mun ekki endurtaka þann leik gegn okkur á sunnudaginn en Rami mun taka út leikbann.

Hetjurnar okkar á Stade de France árið 1999 voru einnig ansi nálægt því að eyðileggja daginn fyrir heimamönnum. Frakkar voru komnir í þægilega 2-0 forystu í hálfleik en okkar menn voru ekki á því að leggja árar í bát. Eyjólfur Sverrisson skoraði eitt glæsilegasta aukaspyrnumark Íslandssögunnar og Brynjar Björn Gunnarsson jafnaði leikinn eftir um 10 mínútna leik í seinni hálfleik eftir dúnmjúka stoðsendingu frá gulldrengnum okkar, Eið Smára Guðjohnsen sem hafði komið inná sem varamaður. David Trezeguet sá hins vegar til þess að Frakkar yrðu sér ekki til ævarandi skammar fyrir framan sína eigin stuðningsmenn og skoraði sigurmarkið í 3-2 sigri þeirra.

Allir landsmenn muna síðan eftir gullskalla Ríkharðar Daðasonar sem tryggði okkur 1-1 "sigur" á ríkjandi heimsmeisturum Frakka á Laugardalsvelli árið 1998. Ógleymanlegt atvik átti sér stað eftir leik þegar íþróttafréttamaðurinn, Ingólfur Hannesson kyssti þáverandi landsliðsþjálfara okkar, Guðjón Þórðarson í viðtali eftir leikinn. Ekkert óeðlilegt við það í sjálfu sér enda ein mögnuðustu úrslit í íslenskri knattspyrnusögu. Vonandi fáum við fleiri kossa á sunnudaginn. Áfram Ísland!!!
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner