Man Utd berst við Arsenal um Gyökeres - Chelsea og Napoli vilja Garnacho - Milan hættir að eltast við Rashford
   mið 30. ágúst 2017 15:05
Magnús Már Einarsson
Gluggadagurinn hjá Man Utd: Slökkt á faxvélinni og skrifstofan í fríi
Lukaku hefur byrjað af krafti hjá United.
Lukaku hefur byrjað af krafti hjá United.
Mynd: Getty Images
Matic kom frá Chelsea í sumar.
Matic kom frá Chelsea í sumar.
Mynd: Getty Images
Zlatan krotaði undir nýjan samning í síðustu viku.
Zlatan krotaði undir nýjan samning í síðustu viku.
Mynd: Getty Images
Allt útlit er fyrir að gluggadagurinn á morgun verði sá líflegasti í mörg ár. Fótbolti.net hefur því ákveðið að taka púlsinn á eldheitum stuðningsmönnum stærstu félaganna á Englandi.

Tryggvi Páll Tryggvason á raududjoflarnir.is, reiknar ekki með miklum tíðindum hjá Manchester United á morgun.

„Satt best að segja er líklegast að það gerist mest lítið. Eftir að United landaði Nemanja Matic hefur slúðurvélin meira og minna hætt að snúast og það lítur út fyrir að José Mourinho sé bara sáttur við hópinn, ekki síst eftir að hann nældi aftur í Zlatan sem verður ansi öflug viðbót þegar allt fer af stað í desember/janúar. Ég hugsa að það sé búið að slökkva á faxvélinni og ætli skrifstofan sé ekki bara komin í verðskuldað frí eftir ágætt sumar," sagði Tryggvi við Fótbolta.net í dag.

„Það hefur mest verið rætt um að Andreas Pereira sé mögulega á förum á láni, annað hvort til Hollands eða Spánar en fyrir utan hann mun enginn af þeim sem er viðriðinn aðalliðið fara frá félaginu."

Tryggvi útilokar þó ekki að eitthvað óvænt gæti gerst. „Það er aldrei að vita og Ed Woodward hefur alveg hent sprengjum á lokametrunum samanber þegar hann landaði Anthony Martial öllum að óvörum hér um árið. Ég held að það sé alveg ljóst að Mourinho væri til í að bæta við einum hreinræktuðum kantmanni í hópinn til þess að þjónusta Romelu Lukaku. Ef að eitthvað óvænt tengist það líklega slíkum leikmanni."

„Annars væri mjög gaman að sjá Woodward stríða Arsenal aðeins með einu laufléttu tilboði í Alexis Sanchez. Það virkaði nefnilega ansi vel síðast þegar United nældi í besta leikmann Arsenal."

Manchester United keypti Romelu Lukaku, Nemanja Matic og Victor Lindelöf í sumar og Tryggvi er ánægður með liðsstyrkinn.

„Það er oft þannig að þegar gluggadagurinn er tíðindalítill er það merki um að sumarið hafi gengið vel og þannig er staðan hjá United í dag. Félagið hefur styrkt sig þar sem það skipti hvað helstu máli. Eftir að Zlatan meiddist þurfi alvöru framherja og það verður ekki mikið betra en að næla í ungan leikmann sem þekkir ekkert annað en að raða inn mörkum í ensku úrvalsdeildinni. Það hafa svo allir séð hvernig Nemanja Matic hefur smollið inn í liðið eins og hann hafi spilað 250 leiki fyrir félagið."

„Þessir tveir leikmenn gera það að verkum að hryggjarsúla United er orðin allsvakaleg og í fyrsta sinn í ansi langan tíma er United komið með miðju sem önnur lið geta farið að missa svefn yfir. Mourinho er búinn að raða saman liði sem er bæði líkamlega sterkt og hávaxið, en ekki síst stútfullt af tækni og gæðum. Matic og Lukaku smellpassa inn í þetta."

„Helsta spurningamerkið er auðvitað Victor Lindelöf sem var nú ekki beint að heilla alla upp úr skónum á undirbúningstímabilinu. Njósnarar United hafa þó fylgst með honum í lengri tíma og maður hefur ekki trú á öðru en að hann komi sterkur inn fyrr en seinna. Hann er ekki fyrsti miðvörðurinn sem kemur til United og lendir í smá byrjunarörðugleikum, spurðu bara Nemanja Vidic."

„Að fá Zlatan inn er svo rándýr bónus sem á eftir að styrkja liðið afar vel þegar það skiptir hvað mestu máli, innan vallar sem utan. Ef að United hefði svo nælt í Ivan Perisic eða sambærilegan kantmann hefði þetta í raun verið hinn fullkomni gluggi. Miðað við fyrstu leiki tímabilsins er ljóst að ef liðinu vantar eitthvað er það kantmaður sem getur teygt á andstæðingnum og smellt boltanum á kollinn á Lukaku."


„Það er samt erfitt að kvarta eftir þetta sumar, sem og það síðasta, þannig að ég ætla ekki að gera það," sagði Tryggvi kátur að lokum.

Sjá einnig:
Gluggadagurinn hjá Liverpool: Veðjar á að Coutinho verði kyrr
Gluggadagurinn hjá Tottenham: Við þurfum miklu stærri hóp
Gluggadagurinn hjá Man City: Aubameyang kemur ef Alexis kemur ekki
Gluggadagurinn hjá Chelsea: Þessi gluggi fær falleinkunn
Athugasemdir
banner
banner
banner