Gunnar Borgþórsson þjálfari Selfyssinga var svekktur eftir tap sinna manna gegn Fylki í Inkassodeildinni í kvöld. Gunni segir að sínir menn hafi átt meira skilið út úr leiknum.
Lestu um leikinn: Selfoss 1 - 2 Fylkir
„Ég var bjartsýnn allan leikinn. Mér fannst við eiginlega betri allan tímann. Við vorum að ógna þeim töluvert, þeir refsa okkur tvisvar og eiga eitt skot fyrir utan annars eiga þeir færi í leiknum."
„Það er það sem er að gera okkur óleik í dag, liðið spilaði vel og var þétt og við eigum skot í slá. Þau eru eittvað vitlaust stillt mörkin hérna held ég, við skjótum 2-3 í slá í hverjum leik."
„Ég er ánægður með strákana og liðið. Við skildum allt eftir á vellinum og gæðin voru líka til staðar svo það er ekki hægt að biðja um neitt annað."
Selfyssingar hafa aðeins unnið tvo heimaleiki í deildinni meðan að útisigrarnir hafa verið fimm talsins.
„Það skiptir ekki máli hvort það sé heima eða að heiman þú vilt bara vinna leiki. Við erum búnir að vinna 7 leiki núna, unnum 6 í fyrra. Það væri gaman að taka 8 eða 9 sigurleiki, við héldum að 8. væri að koma í dag."
Athugasemdir