fim 30. október 2014 16:30
Elvar Geir Magnússon
Gunni Guðmunds: Stjórnin veit að það þarf að styrkja liðið
Gunnar Guðmundsson, þjálfari Gróttu.
Gunnar Guðmundsson, þjálfari Gróttu.
Mynd: Magnús Örn Helgason
Gunnar Guðmundsson skrifaði í gær undir samning um þjálfun Gróttu sem komst upp úr 2. deildinni á liðnu tímabili. Gunnar hefur undanfarin tvö ár þjálfað Selfyssinga í 1. deildinni en hann hætti þar eftir tímabilið.

Þá hefur hann einnig þjálfað U17 og HK við góðan orðstír.

„Við tókum okkur góðan tíma í að spjalla saman og fara yfir stöðuna. Að lokum náum við saman," segir Gunnar en markmið Gróttu á næsta tímabili er augljóslega að halda sætinu í 1. deild.

„Mér lýst vel á þetta verkefni. Við gerum okkur jafnframt grein fyrir því að þetta verður hörð barátta. Við erum að koma upp í 1. deildina sem er gríðarlega sterk. Við þurfum að hafa fyrir því að halda okkur í deildinni. Það er það sem við stefnum að."

„Önnur markmið eru ekki raunhæf. Deildin er að styrkjast með hverju árinu. Hún var feykilega jöfn í ár og ég sé enga breytingu á því. Hún verður mjög jöfn á næsta ári líka."

„Ég hef farið lauslega yfir leikmannahópinn en ætla að gefa mér tíma í haust til að skoða hópinn vel sem er til staðar. Það er alveg ljóst að við þurfum að styrkja liðið að einhverju leyti en til að byrja með munum við kíkja aðeins inn á við," segir Gunnar en hefur hann eitthvað fjármagn til að styrkja liðið?

„Stjórnin gerir sér grein fyrir því að við þurfum að styrkja okkur og er tilbúin að setja smá fjármagn í það. Það er ákveðinn rammi sem við þurfum að vinna eftir og höldum okkur innan hans."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner