mán 30. nóvember 2015 11:45
Elvar Geir Magnússon
Meiðslavandræði Arsenal engin óheppni
Það er bras á Wenger og hans mönnum.
Það er bras á Wenger og hans mönnum.
Mynd: Getty Images
Arsenal getur aðeins sjálfum sér um kennt að hafa ekki búið sig almennilega undir titilbaráttu í ensku úrvalsdeildinni. Þetta skrifar John Cross, íþróttafréttamaður Daily Mirror.

„Ekki trúa þeim sögum að meiðslavandræði Arsenal séu bara óheppni," segir Cross en Arsenal hefur þurft að súpa seiðið af meiðslum lykilmanna.

Hann segir að þetta tímabil sé tækifærið fyrir Arsenal að ná Englandsmeistaratitlinum því ekkert lið í deildinni sé framúrskarandi.

„Manchester City er klárlega með besta leikmannahópinn að mínu mati en liðið er alls ekki sannfærandi. Þetta er mjög pirrandi fyrir Arsenal og þeirra stuðningsmenn. Þarna fengu þeir glugga tækifæris en meiðslavandræðin voru svo fyrirsjáanleg þar sem hópurinn er ekki nægilega breiður og öflugur."

Cross gagnrýnir Arsene Wenger, stjóra Arsenal, fyrir að hafa ekki keypt neinn topp útispilara í sumar.

„Það gerir það að verkum að hann getur ekki hvílt lykilmenn og er ástæða þess að Alexis Sanchez hefur bæst á meiðslalista sem sífellt lengist. Það getur enginn komið alveg í staðinn fyrir Sanchez en ef þú hefur góða varakosti þarf ekki að spila honum gegn Norwich þegar hann er að glíma við meiðsli aftan í læri. Þetta var leikur sem þú gerir kröfu á lið í titilbaráttu að vinna," segir Cross en leikurinn endaði með 1-1 jafntefli.

„Þetta eru engin geimvísindi. Það var augljóst að Arsenal þurfti nauðsynlega tvo leikmenn í sumar. Hágæða sóknarmann og varnarmiðjumann."

Tíu leikmenn eru á meiðslalista Arsenal núna. Auk Sanchez meiddist Laurent Koscielny gegn Norwich og Santi Cazorla lauk leiknum haltrandi vegna meiðsla á hné. Þá eru Kieran Gibbs, Jack Wilshere, Danny Welbeck, Tomas Rosicky, Theo Walcott, Francis Coquelin og Mikel Arteta allri fjarri góðu gamni.

„Þetta virðist vera saga Arsenal á hverjum degi. Þetta minnir á Groundhog day," segir Cross sem skellir skuldinni alfarið á Wenger.

„Arsenal er með mjög hæfa einstaklinga í sjúkrateymi sínu en Wenger tekur ákvörðun á endanum um hvort hvíla eigi menn eða ekki. Wenger ákveður hvernig menn æfa, hvenær þeir æfa og hvort þeir eigi að spila."

„Wenger verður minnst sem besta knattspyrnustjóra í sögu Arsenal. En maður spur sig hvort hann geti unnið titilinn aftur eða hvort þrjóska hans hindri Arsenal í að taka lokaskrefið?" segir Cross.
Athugasemdir
banner
banner
banner