banner
   mán 30. nóvember 2015 19:01
Ívan Guðjón Baldursson
Vardy þarf að skora í næstu tíu leikjum til að jafna Messi
Mynd: Getty Images
Jamie Vardy bætti markamet ensku úrvalsdeildarinnar um helgina en þarf að skora í hverjum einasta leik fram í febrúar til að bæta markametið sem Lionel Messi setti í spænsku efstu deildinni.

Messi, sem er af mörgum talinn besti knattspyrnumaður frá upphafi íþróttarinnar, skoraði í 21 deildarleik í röð. Til samanburðar hefur Cristiano Ronaldo skorað í 10 leikjum í röð.

Lionel Messi byrjaði á því að skora tvö í 4-2 sigri gegn Mallorca í nóvember 2012 og skoraði síðan í næstu 20 deildarleikjum, allt þar til Börsungar mættu Atletico Madrid í maí 2013.

Messi skoraði 46 mörk á því tímabili þar sem Barcelona endaði með 100 stig og vann spænsku deildina með 15 stiga mun undir stjórn Tito Vilanova.

Ef Vardy heldur áfram uppteknum hætti þá getur hann jafnað met Messi gegn Liverpool þann 2. febrúar og fær svo tækifæri til að bæta það gegn Manchester City, þann 6. febrúar.

Vardy hefur skorað í ellefu leikjum í röð og takist honum að skora í næsta leik, gegn Swansea á laugardaginn, jafnar hann met sem Jimmy Dunne setti tímabilið 1931-32 þegar hann skoraði í tólf leikjum í röð fyrir Sheffield United.

Skori Vardy gegn Swansea toppar hann argentínsku goðsögnina Gabriel Batistuta sem skoraði í ellefu leikjum í röð og á metið í ítölsku deildinni.
Athugasemdir
banner
banner