Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 31. maí 2016 17:00
Hafliði Breiðfjörð
Osló
Aron Einar: Eiður Smári mun hjálpa okkur mikið
Icelandair
Aron Einar á fundi íslenska landsliðsins í dag.
Aron Einar á fundi íslenska landsliðsins í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron Einar Gunnarsson fyrirliði íslenska landsliðsins var spurður út í Eið Smára Guðjohnsen á fréttamannafundi Íslands á Ulleval í morgun.

Eiður Smári sem spilar með Molde hér í Noregi er í 23 manna hópi Íslands sem fer á Evrópumótið í sumar og Aron Einar telur hann vera mikilvægan hlekk í Frakklandi.

„Hann færir hópnum svo margt. Hann hefur reynslu af því að vinna deildartitla og Meistaradeild Evrópu og ég veit að hann mun skara fram úr þegar fjölmiðlar leita í okkur. Sérstaklega í Frakklandi því þetta er stórfrétt og við vitum það allir," sagði Aron Einar á fréttamannafundi í dag.

„Ég er mjög ánægður með að hann sé með okkur, hann er góður karakter og kemur með aðra vídd í hópinn. Hann er líka ennþá frábær fótboltamaður, hann er fljótur að hugsa inni á vellinum og þarf ekki hraðann sem hann hafði áður."

„Það er gott að hafa hann í hópnum og hann mun hjálpa okkur mikið. Hvort sem hann kemur inná sem varamaður eða byrjar leikina þá vitum við að hann er traustur á boltann."


Leikur Íslands gegn Noregi fer fram á Ulleval leikvangnum í Osló annað kvöld klukkan 17:45 að íslenskum tíma.

Hægt er að sjá hann í sjónvarpsútsendingu á RÚV.
Athugasemdir
banner