Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 31. maí 2017 15:30
Elvar Geir Magnússon
Halli Björns: Er ótrúlega svekkjandi
Það er áfall fyrir Stjörnuna að missa Harald í meiðsli.
Það er áfall fyrir Stjörnuna að missa Harald í meiðsli.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Haraldur kom til Stjörnunna fyrir tímabilið.
Haraldur kom til Stjörnunna fyrir tímabilið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Markvörðurinn öflugi Haraldur Björnsson verður í stúkunni í kvöld þegar Stjarnan mætir Val á Hlíðarenda í stórleik í 16-liða úrslitum Borgunarbikarsins.

Haraldur verður reyndar frá næstu vikurnar eftir að hafa handarbrotnað á vinstri hendi á æfingu í vikunni. Mikið áfall fyrir Stjörnuna og Harald sjálfan.

„Þetta er ótrúlega svekkjandi þar sem við höfum farið vel af stað og verið stígandi í liðinu. Þetta hefur verið mjög gaman og svekkjandi að þetta gerist. Það er nánast nákvæmlega ár síðan ég braut hina hendina." segir Haraldur.

„Brotið núna er reyndar aðeins verra núna. Þetta er inni í handarbakinu. Hitt var fingurinn."

Haraldur gekk í raðir Stjörnunnar í vetur eftir fimm ár í atvinnumennsku. Hann segist ekki vita nákvæmlega hvenær hann á að geta snúið aftur í markið.

„Í rauninni veit ég það ekki. Ég er í gipsi núna svo þetta haldist alveg saman. Svo þarf ég að fara í aðra myndatöku eftir svona viku til að sjá hvernig þetta liggur," segir Haraldur.

„Það eru stórleikir í þessari viku og erfitt að kyngja því að geta ekki tekið þátt í þeim. Ég missi af leiknum gegn mínum gömlu félögum í Val í kvöld og svo leiknum gegn FH á sunnudag. Það er alltaf erfitt að vera í stúkunni eða á bekknum en enn meira svekkjandi núna."

Sveinn Sigurður Jóhannesson varamarkvörður kemur í mark Stjörnunnar í stað Haralds. Sveinn var lánaður í Fjarðabyggð í fyrra þar sem hann lék 12 leiki.

„Það kemur maður í manns stað. Hann er mjög góður og hefur staðið sig mjög vel í vetur. Við höfum engar áhyggjur af því. Samkvæmt einkunnagjöf 433.is er ég líka búinn að vera lélegasti leikmaður Stjörnunnar í sumar svo það ætti ekki að vera mikil vöntun," segir Haraldur kíminn að lokum.

Leikur Vals og Stjörnunnar í kvöld hefst klukkan 20 og verður í beinni textalýsingu Fótbolta.net eins og allir aðrir bikarleikir.
Athugasemdir
banner
banner
banner