fim 31. júlí 2014 19:54
Daníel Freyr Jónsson
Borgunarbikarinn: KR í úrslitin eftir sigur á ÍBV í sjö marka leik
Kjartan Henry skoraði tvö.
Kjartan Henry skoraði tvö.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
ÍBV 2 - 5 KR
0-1 Kjartan Henry Finnbogason ('31)
0-2 Baldur Sigurðsson ('45)
1-2 Jonathan Ricardo Glenn ('47)
1-3 Kjartan Henry Finnbogason ('65)
1-4 Gonzalo Balbi Lorenzo ('76)
1-5 Óskar Örn Hauksson ('84)
2-5 Andri Ólafsson ('86)

Íslandsmeistarar KR munu leika til úrslita í Borgunarbikarnum í ár eftir sigur á ÍBV í miklum markaleik í undanúrslitunum, 5-2.

Leikið var í mikilli blíðu á Hásteinsvelli að viðstöddum 1300 áhorfendum. Þeir sáu KR komast í 2-0 í fyrri hálfleik þökk sé mörkum Kjartans Henry Finnbogasonar og Baldurs Sigurðssonar.

Jonathan Glenn gaf Eyjamönnum von þegar hann minnkaði muninn í upphafi síðari hálfleiks. Sú von fór hinsvegar út um gluggan þegar Kjartan Henry skoraði sitt annað mark tæp 20 mínútum síðar.

Gonzalo Balbi gerði síðan út um leikinn með fjórða marki KR á 76. mínútu.

Úrslitin voru ráðin en markaveislan hélt þó áfram og tókst báðum liðum að skora á síðustu 10 mínútum leiksins. Fyrst skoraði Óskar Örn Hauksson eftir sofandahátt í vörn ÍBV, áður en Andri Ólafsson minnkaði muninn á nýjan leik.

KR leikur til úrslita í Borgunarbikarnum í þriðja sinn á fjórum árum. Andstæðingarnir að þessu sinni verða Keflavík og fer leikurinn fram 16. ágúst.
Athugasemdir
banner
banner
banner