fim 31. júlí 2014 07:30
Hafliði Breiðfjörð
Heimild: Expressen 
Jón Jónsson mætir Jon Jönsson í dag
Jón Jónsson leikmaður FH er tilbúinn í nafnaslaginn í Svíþjóð í dag.
Jón Jónsson leikmaður FH er tilbúinn í nafnaslaginn í Svíþjóð í dag.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
FH mætir sænska liðinu Elfsborg í Evrópudeild UEFA klukkan 16:00 í dag og sænskir fjölmiðlar voru fljótir að finna stjörnuna í FH liðinu, poppstjörnuna Jón Jónsson.

Það vakti athygli blaðamanna Expressen þegar þeir fóru yfir leikmannalista FH liðsins að þar var að finna mann með sama nafn og ein af stjörnum Elfsborg, Jón Jönsson.

,,Haha, nei ég hef ekki hugmynd. Ég þekki ekki neinn þarna," sagði sá sænski aðspurður um poppstjörnuna í FH liðinu en bætti við. ,,En besti vinur minn (Jonas Sandqvist markvörður Keflavíkur) er á Íslandi. Ég spyr hann út í þetta," bætti hann við .

Þann íslenska þarf varla að kynna fyrir þér sem lest þetta, hann vann sér fast byrjunarliðssæti í FH liðinu í fyrra en hafði áður getið sér gott orð sem tónlistarmaður, ritstjóri Mónitor og er dómari í Ísland got Talent og fleira. Hann veit vel hver sænski nafni sinn er.

,,Ég hef vitað hver hann er í nokkurn tíma. Ef ég Googla mig þá kemur hann upp. Ég veit að hann er góður og hefur spilað í Frakklandi, Danmörku og á Englandi. Mér finnst frábært að það verði barátta Jón-anna."

Expressen segir frá því að milli leikja liðanna sem fara fram í dag og næsta fimmtudag muni Jón Ragnar spila á stærstu tónlistarhátíð Íslands fyrir framan 15 þúsund manns og vísar þar í að hann treður upp á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum á föstudagskvöldið.
Athugasemdir
banner
banner
banner