fim 31. júlí 2014 13:00
Arnar Daði Arnarsson
Skúli Jón: Þeir eru spenntir að fara til Íslands
Skúli Jón fagnar bikarmeistaratitlinum í janúar.
Skúli Jón fagnar bikarmeistaratitlinum í janúar.
Mynd: Getty Images
Anders Svensson er lykilmaður í liði Elfsborg.
Anders Svensson er lykilmaður í liði Elfsborg.
Mynd: Getty Images
FH-ingar leika fyrri leik sinn í forkeppni Evrópudeildarinnar í Svíþjóð í dag. Andstæðingar þeirra eru sænsku bikarmeistararnir í Elfsborg. Skúli Jón Friðgeirsson er á láni hjá Gefle frá Elfsborg en hann varð bikarmeistari með liðinu í janúar.

Við heyrðum í honum hljóðið og spurðum hann út í möguleika FH í einvíginu gegn Elfsborg.

,,Auðvitað á Elfsborg að vera með betra lið og ef þeir fá að spila á sínum styrkleikum þá eru þeir mjög öflugir. Það er margt í þeirra leik sem gæti hjálpað FH-ingum til að ná góðum úrslitum. Þeir sækja á mörgum mönnum og skilja yfirleitt mikið pláss eftir sig og FH-ingarnir ættu að geta nýtt sér það. Ég tel því möguleika FH vera ágæta," sagði Skúli Jón sem hefur lítið talað við leikmenn Elfsborg varðandi þessa leiki sem framundan eru.

,,Þeir eru spenntir að fara til Íslands en ég lítið rætt um möguleikana í þessu einvígi og hvernig þeir ætla að spila þessa leiki. Það verður líklega einhverstaðar eitthvað vanmat hjá þeim."

Leikjahæsti landsliðsmaður Svíþjóðs, Anders Svenson er leikmaður Elfsborg. Skúli Jón segir að hann sé aðal maðurinn hjá Elfsborg og FH-ingar verði að hafa gætur á honum.

,,Hann stjórnar miklu hjá félaginu og er ennþá þokkalegur leikmaður þó hann sé auðvitað orðinn 38 ára og hreyfist kannski ekki mikið inn á vellinum. Hann er með góðar sendingar og er alveg með þetta."

,,Viktor Claesson er síðan annar leikmaður sem spilar framarlega á miðjunni. Hann er mjög öflugur og býr mikið til. Ég myndi segja að hann og Svenson stjórni flestu í uppspili þeirra."

Markvörður Elfsborg er Daninn, Keven Stuhr-Ellegaard. Hann var í herbúðum Manchester City 2003 til 2005.

,,Hann átti ekkert sérstakt tímabil í fyrra en hann hefur verið fínn í ár. Hann kom þeim til dæmis áfram í síðustu umferð eftir vítaspyrnukeppnina," sagði Skúli Jón aðspurður út í þann danska.

Heimavöllur Elfsborg tekur tæplega 17 þúsund manns. Skúli segir að yfirleitt sé í kringum 10 þúsund manns á heimaleikjum liðsins í sænsku deildinni en töluvert færri á Evrópuleikjunum.

,,Stuðningsmennirnir eru nú oftast frekar rólegir miðað við hin stóru liðin í Svíþjóð. Það hefur verið vandamál að fá fólk á völlinn á þessa forkeppnis leiki. Í Evrópukeppninni hafa þeir verið í erfiðleikum með að fá fólk til að mæta og ég veit ekki hvernig þeim gengur að selja miða fyrir leikinn í dag. Ég býst ekkert við neinni svakalegri stemningu. Á deildarleikjum er ágætis stemning," sagði Skúli Jón Friðgeirsson að lokum.
Athugasemdir
banner
banner