Færeyski landsliðsmaðurinn Rene Joensen staðfestir við færeyska fjölmiðla að hann hafi skrifað undir samning við Grindavík. Sammingurinn er út tímabilið.
Hinn 24 ára gamli Rene er fjölhæfur leikmaður en hann getur spilað á báðum köntunum, í bakverði og á miðjunni.
Rene var í yngri liðum Bröndby á sínum tíma en hann lék síðan með HB í heimalandinu 2014 og 2015. Undanfarin tvö ár hefur hann verið hjá Vendsyssel í dönsku B-deildinni.
Rene hefur leikið með öllum yngri landsliðum Færeyja en hann á einnig tíu A-landsleiki að baki. Hann kom inn á sem varamaður þegar Færeyingar töpuðu gegn Sviss í undankeppni HM í síðasta mánuði.
Grindvíkingar hafa verið að styrkja leikmannahópinn í júlí glugganum en auk Rene hafa þeir Simon Smidt og Edu Cruz komið til félagsins. Smidt er kantmaður sem kom frá Fram en Edu kom aftur inn í vörn Grindvíkinga eftir dvöl í Noregi.
Grindavík er í þriðja sæti Pepsi-deildarinnar en í kvöld tekur liðið á móti Víkingi Reykjavík.
Athugasemdir