fös 31. október 2014 18:30
Magnús Már Einarsson
Heimild: Víkurfréttir 
Formaður Grindavíkur: Ætlaði að ráða Heimi Hallgríms
„Mestu mistök sem ég hef gert"
Jónas Þórhallsson.
Jónas Þórhallsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðjón Þórðarson.
Guðjón Þórðarson.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
„Það voru vonbrigði en þetta eru okkar örlög. Þetta er bara búið og gert. Við þurfum að fara í aðgerðir og laga til í rekstrinum. Svona hugsjónastarf má ekki við svona skakkaföllum,“ segir Jónas Þórhallsson formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur í viðtali við Víkurfréttir en hæstiréttur staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að Grindvíkingar skuli greiða Guðjóni Þórðarsyni 8,4 milljónir króna í skaðabætur fyrir vangoldin laun.

Guðjón stýrði Grindavík þegar liðið féll úr Pepsi-deildinni sumarið 2012. Aðilar deildu um túlkun á 2. gr. samningsins þar sem fram kom að hvor aðili gæti á tímabilinu 1.- 15. október, ár hvert á samningstímanum, sagt upp launalið samnings aðila. Vildi Guðjón meina að í raun hefði honum verið sagt upp störfum en ekki var heimilt skv. samningnum að segja honum upp í heild.

Jónas segist hafa ætlað að ráða Heimi Hallgrímsson sem þjálfara áður en hann ákvað að semja frekar við Guðjón. Heimir var ráðinn aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins á meðan Guðjón tók við Grindavík.

,,Ég vildi ráða hann 1999 þá fór hann til Stoke. Árið 2005 sveik hann okkur og fór til Keflavíkur, þá fékk ég slæma mynd af honum. Þegar við svo loks réðum hann þá var ég á leiðinni að ráða Heimi Hallgrímsson. Þá var mér var tjáð að Guðjón vildi koma til Grindavíkur. Það var búið að benda mér á ýmsa galla hjá manninum en hann hafði árangur í farteskinu. Ég hafði samt trú á að hann gæti gert góða hluti hér og fór með það inn á borð til stjórnarinnar og þar var það samþykkt,“ segir Jónas við Víkurfréttir.

„Ég ber fulla ábyrgð á þessu og ætla ekki að benda á einn eða neinn. Þetta eru mín stærstu mistök og ég reyni ekki að koma þeim á einn eða neinn. Ég ber ekki kala til eins né neins,“

,,Þegar Grindvíkingar féllu svo undir stjórn Guðjóns þá voru allar forsendur farnar. Við ætluðum að sækja fram en ekki falla fram af brúninni. Með Guðjón í brúnni þá héldum við að hann myndi fleyta okkur áfram eftir vandræði árin á undan. Það fór hins vegar á versta veg.“

Í viðtalinu við Víkurfréttir talar Jónas um að Grindvíkingar hafi áður lent í fjárhagslegu áfalli en þar á hann við þegar félagið þurfti að greiða 14,7 milljóna skattskuld árið 2007.

Sjá einnig:
Grindavík þarf að greiða Guðjóni vangoldin laun
Dóms beðið í máli Grindavíkur gegn Guðjóni
Athugasemdir
banner
banner