Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fim 24. febrúar 2011 09:00
Elvar Geir Magnússon
Verstu kaup ensku félaganna - fyrri hluti
Francis Jeffers hjá Arsenal.
Francis Jeffers hjá Arsenal.
Mynd: Getty Images
Paul Warhurst hjá Blackburn.
Paul Warhurst hjá Blackburn.
Mynd: Getty Images
Andriy Shevchenko hjá Chelsea.
Andriy Shevchenko hjá Chelsea.
Mynd: Getty Images
Alberto Aquilani hjá Liverpool.
Alberto Aquilani hjá Liverpool.
Mynd: Getty Images
Umræður um verstu leikmannakaup ensku úrvalsdeildarinnar hafa átt sér stað síðan deildin var stofnuð. Vefsíðan Off The Post hefur nú tekið saman versu kaup hvers félags í ensku úrvalsdeildinni að sínu mati.

Við birtum nú fyrri hlutann af þessari samantekt en hún er unnin á fagmannlegan hátt. Þar sem leikmennirnir eru keyptir á mismunandi tímum er búið að reikna út hvað hver upphæð samsvarar í dag og er það birt innan sviga.

Arsenal
Francis Jeffers – 10 m punda (13,1 m punda)
Arsene Wenger er snillingur í fótboltafræðum og fengið fjölmarga unga og efnilega leikmenn erlendis frá. Hann hefur þó einnig gert slæm kaup og fengið leikmenn eins og Richard Wright og Jose Antonio Reyes sem lítið hafa sýnt.

Það eru þó kaupin á sóknarmanninum Francis Jeffers sem eru mestu mistökin. Hann var í byrjunarliðinu í aðeins tveimur af 114 leikjum sínum hjá Arsenal og skoraði í heildina fjögur mörk. Algjör peningasóun og ekki að furða að Wenger horfi nú aðeins út fyrir landsteinana að nýjum leikmönnum.

Aston Villa
Sasa Curcic – 4 m punda (10,6 m punda)
Það væri líklegast best fyrir Aston Villa að horfa ekki til Austur-Evrópu eftir leikmönnum. Milan Baros og Bosko Balaban veittu Curcic samkeppni sem verstu kaup Villa. Curcic lék aðeins 22 leiki fyrir Villa og aðeins fimm mánuðum eftir að hafa verið keyptur bað hann um að vera settur á sölulista.

Hann sagði að sú ákvörðun sín að fara til Aston Villa hefði verið versta ákvörðun lífs síns. Hann fór ófögrum orðum um knattspyrnustjórann Brian Little í fjölmiðlum, djammaði mikið og var síðan seldur til Crystal Palace fyrir eina milljón punda.

Birmingham
Luciano Figueroa – 2,5 m punda (5,1 m punda)
Keyptur frá argentínska félaginu Rosario Central árið 2003. Figueroa olli mestum vonbrigðum af þeim leikmönnum sem Steve Bruce fékk til Birmingham. Hann náði ekki að byrja einn einasta leik fyrir félagið og var leystur undan samningi í lok tímabils með aðeins einn leik á bakinu.

Þrátt fyrir að Figueroa hafi ekki náð að aðlagast þá sýndi hann það síðar að hann hefur hæfileikana. Yfir 50 leikir fyrir Villareal á Spáni sanna það.

Blackburn
Paul Warhurst – 2,65 m punda (15,8 m punda)
2,65 milljónir punda virðast ekki mjög mikið fyrir leikmann í dag en 1993 var það mikið. Sérstaklega fyrir leikmann eins og Paul Warhorst sem kom til Blackburn frá Sheffield Wednesday.

Warhurst byrjaði aðeins 30 af þeim 160 úrvalsdeildarleikjum sem hann var tiltækur í og skoraði aðeins fjögur mörk. Hann var keyptur sem sóknarmaður en stóð sig það illa að hann var á endanum færður í vörnina!

Blackpook
Chris Basham – 1,2 m punda (1,2 m punda)
Þetta er smá ósanngjarnt gagnvart Blackpool og Basham þar sem félagið hefur aðeins fengið tvo félagaskiptaglugga sem úrvalsdeildarfélag og Basham var þannig lagað ekki mjög dýr. Þetta er þó mikill peningur fyrir félag eins og Blackpool. Basham hefur aðeins byrjað einn leik fyrir félagið og það var í deildabikarnum. Hefur aðeins spilað 30 mínútur í úrvalsdeildinni. Ekki er það peninganna virði.

Bolton
Dean Holdsworth – 3,5 m punda (11,8 m punda)
Bolton hefur oft sýnt kænsku á leikmannamarkaðnum og frekar horft til leikmanna sem kosta lítið sem ekkert. Félagið hefði þó aldrei átt að eyða 3,5 milljónum punda í Dean Holdsworth. Ekki mjög gáfuleg kaup og sérstaklega ekki 1997.

Vissulega skilur hann eftir sig ágæta tölfræði (39 deildarmörk í 158 leikjum) en átti ekki að verða dýrasti leikmaður Bolton frá upphafi þar sem hann lék ekki það marga byrjunarliðsleiki til að réttlæta verðmiðann.

Chelsea
Andrei Shevchenko – 30,9 m punda (53,5 m punda)
Juan Sebastian Veron sleppur. Byrjaði 13% leikja en samt sem áður nær hann ekki að vera verstu kaup Chelsea. Adrian Mutu telst líka heppinn. Sá sem bjargar þeim er einn skæðasti sóknarmaður seinni ára.

Shevchenko var fokdýr og aðlagaðist einfaldlega ekki. Markatölfæði hans þegar hann var keyptur var nánast ekki mannleg. Hann olli það miklum vonbrigðum að orð fá því varla lýst. Hann skoraði minna en tíu deildarmörk á sínum ferli hjá Chelsea og var sendur á lán. Var þó skráður leikmaður Chelsea til 2009 en þá hélt hann heim til Dynamo Kyiv.

Everton
Per Kroldrup – 5 m punda (9, 1 m punda)
Við biðjum stuðningsmenn Everton afsökunar. Kaupin á Per Kroldrup er eitthvað sem þeir hafa viljað gleyma. Keyptur frá Udinese 2005 en spilaði aðeins einn deildarleik í byrjunarliði áður en hann fór til Fiorentina ári síðar. Gerði ekkert fyrir Everton.

Fulham
Steve Marlet – 13,5 m punda (17,7 m punda)
Sum kaup eru afleit því leikmaðurinn spilaði ekki nægilega marga leiki og önnur því hann skoraði ekki nægilega mörg mörk. Í tilfelli Steve Marlet er það einfaldlega því of miklum peningum var eytt í leikmanninn.

Hann byrjaði vel en fór svo að leika það illa að hann var lánaður til Marseille í 18 mánuði. Fulham hélt samt áfram að borga launin hans. Stjórnarformaður Fulham var allt annað en sáttur við þann pening sem fór í hinn ofmetna Marlet og knattspyrnustjórinn Jean Tigana var rekinn.

Liverpool
Alberto Aquilani - 20 m punda (20 m punda)
Ítalskir leikmenn eiga oft erfitt með að fóta sig á Englandi og Aquilani er besta dæmi þess efnis. Þegar hann kom neitaði hann því að hann væri arftaki Xabi Alonso. Hann hafði rétt fyrir sér því hann komst ekki með tærnar þar sem Alonso hafði hælana.

Aquilani skoraði tvö mörk fyrir Liverpool áður en hann var sendur á lán til Juventus. Einhverjir vilja meina að hann hafi bara verið óheppinn með meiðsli á tíma sínum á Anfield en allavega er ljóst að hann stóð alls ekki undir væntingum.

Framhald á morgun...
banner
banner
banner
banner